Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gunnar Smári leiðir ekki lista Sósíalista

Mynd með færslu
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Mynd: RÚV
Það stefnir í að Sósíalistaflokkurinn bjóði fram í borgarstjórnarkosningunum í maí, sagði Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, í Silfrinu í dag. Hann sagði að sjálfur myndi hann ekki leiða lista flokksins, heldur teldi hann sitt hlutverk innan hreyfingarinnar vera annað.

 

Flokkur fólksins ætlar að bjóða fram í borginni í vor. Ekki er búið að kynna hverjir skipa framboðslista flokksins og Inga Sæland, formaður flokksins, vildi ekki upplýsa um sætaskipan í Silfrinu. „Ég ætla að vera leyndardómsfull í nokkra daga í viðbót.“

Framboðslistar stjórnmálaflokkanna eru smám saman að taka á sig mynd og birtast. Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn eru búin að ráðstafa efstu sætum á sínum listum. Alþýðuhreyfingin, Björt framtíð, Frelsisflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa boðað framboð en ekki kynnt framboðslista í borginni.