Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Gunnar kærði Guðlaug Þór

Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur kært Guðlaug Þór Þórðarson, konu hans og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til sérstaks saksóknara.

Kæran snýr að brotum á lögum um mútur og umboðssvik auk hlutdeildar vegna sölu Guðlaugs og konu hans á umboði fyrir erlent tryggingafélag til Landsbankans. Þetta staðfestir lögmaður Gunnars við fréttastofu. Gunnar sætir ákæru fyrir að hafa lekið gögnum um viðskipti Guðlaugs til DV og þannig brugðist trúnaði í starfi.

Gunnar fór þess á leit eftir að mál hans kom til kasta dómstóla að saksóknari aflaði gagna um meint eða raunveruleg viðskipti Guðlaugs við Landsbankann. Þetta sagði Gunnar nauðsynlegt til að hann gæti haldið uppi vörnum í málinu. Saksóknari hafnaði beiðni Gunnars og hvort tveggja héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu Gunnars um að saksóknara yrði gert að afla gagnanna. Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Gunnars, sagði í samtali við fréttastofu að lögregla verði væntanlega við rannsókn málsins að afla þeirra gagna sem Gunnar fór fram á en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.