Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gunnar Eyjólfsson látinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Gunnar Eyjólfsson látinn

21.11.2016 - 17:51

Höfundar

Gunnar Eyjólfsson, leikari, er látinn níutíu ára að aldri. Hann þreytti frumraun sína á fjölunum árið 1945, í sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Kaupmanni í Feneyjum árið 1945. Síðasta hlutverk hans á leiksviði var í Fanný og Alexander, hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þá 85 ára gamall.

Á vef Þjóðleikhússins kemur fram að Gunnar hafi verið fastráðinn leikari við leikhúsið frá árinu 1961 og lék þar á annað hundrað hlutverka, meðal annars titilhlutverkin í Pétri Gaut, Hamlet, Fást, Ödípus konungi og Galdra-Lofti, Jimmy Porter í Horfðu reiður um öxl, Stokkmann í Þjóðníðingi, Prosperó í Ofviðrinu, Jagó í Óþelló og Willy Loman í Sölumaður deyr.

Mynd: RÚV / RÚV
Baksviðs hjá Leikfélagi Húsavíkur, þar sem Gunnar Eyjólfsson fór með hlutverk Péturs Gauts.

Í tilefni af 75 ára afmæli sínu, 24. febrúar 2001, flutti hann einleikinn Uppgjör við Pétur Gaut á stóra sviði Þjóðleikhússins. Hann lék sama einleik fyrir Útvarpsleikhúsið og var honum útvarpað 2006, þegar Gunnar varð
áttræður.

Mynd: RÚV / RÚV

Gunnar lék einnig í fjölda kvikmynda, meðal annars í Lénharði fógeta, 79 af stöðinniParadísarheimt, AtómstöðinniMilli fjalls og fjöru, Hafinu og Mömmu Gógó.

Mynd: RÚV / RÚV
Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld í hlutverkum Ragnars og Gógó í kvikmyndinni 79 af stöðinni.
Mynd: RÚV / RÚV
Atriði úr kvikmyndinni Hafið, 2002. Í því kemur leikarinn Erlingur Gíslason einnig fyrir, en hann lést fyrr á þessu ári.

Gunnar hlaut fjölda verðlauna á löngum ferli. Hann vann til Edduverðlaunanna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hafinu. Árið 2013 fékk hann heiðursverðlaun Grímunnar fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslistar á Íslandi.

Gunnar hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín árið 1999. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 2006.

Gunnar hlaut einnig Shakespeare-verðlaunin hjá RADA, fyrstur útlendinga, vann Tennentverðlaunin og Silfurlampann árið 1963 fyrir túlkun sína á Andra í Andorra og Pétri Gaut.