Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gunnar býður Framsókn og L-lista upp í dans

Mynd: Jón Þór Kristjánsson / RÚV
Oddviti Sjálfstæðisflokks á Akureyri vill sjá heildarsamband allra flokka í bæjarstjórn eða sjö manna meirihluta með Framsóknarflokki og L-lista. Það séu vonbrigði að vera með flesta bæjarfulltrúa annað kjörtímabil og vera aftur í minnihluta. Oddvitar L-lista og Samfylkingar segja viðræður við Framsóknarflokk í fullum gangi, en ekkert sé í höfn. „Við erum trú því eins og er,” segir oddviti L-lista.

Sjálfstæðisflokki, VG og Miðflokki ekki boðið með

Framsóknarflokkur, Samfylking og L-listi leitast nú við að halda sex manna meirihlutasamstarfi á Akureyri gangandi. Sjálfstæðisflokki, sem fengu flesta bæjarfulltrúa, hefur ekki verið boðið að borðinu, né heldur VG eða Miðflokki, sem fengu einn mann hver. Þetta er í raun engin breyting frá síðasta kjörtímabili nema Miðflokkur fékk mann Bjartrar framtíðar sem bauð ekki fram aftur.

Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans, Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingar, og Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna, ræddu málin á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Fundað daglega síðan á kosninganótt

Framsóknarflokkur, Samfylking og L-listi voru í meirihluta á síðasta kjörtímabili, þar áður var L listinn með hreinan meirihluta eftir mikinn sigur. Og nú stefnir allt í sama meirihlutasamstarf og verið hefur, en oddvitarnir þrír hafa fundað daglega síðan á sunnudag til að leggja línurnar. Eiríkur Björn Björgvinsson, sem L listinn réð sem bæjarstjóra 2010, ætlar að hætta störfum hefur ákveðið að hætta störfum þannig að það stefnir allt í að auglýst verði eftir bæjarstjóra, það er ef þetta meirihlutasamstarf sem er í myndun gengur eftir. 

„Að sjálfsögðu vonbrigði”

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna, segir vissulega svekkjandi að vera annað kjörtímabil í röð með flesta bæjarfulltrúa, en virðast ætla að enda í minnilhuta. 

„Það eru að að sjálfsögðu vonbrigði að þessi staða sé uppi enn og aftur og alls ekki það sem við stefndum að. En þetta er eitthvað sem við ráðum ekki við ef við erum ekki fengin að borðinu og höfum ekki tök á því,” segir hann. 

Vilja láta reyna á áframhaldandi samstarf

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingar, undirstrikar að síðasta samstarf hafi gengið vel og vilji sé til þess að tala saman áfram fyrst að meirihlutinn hélt. 

Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans, tekur undir það. 

„Það var okkar mat að halda þessu áfram. Samstarf síðustu fjögurra ara gekk ágætlega,” segir hún. „Nú er komið nýtt fólk að borðinu og við ákváðum að láta á það reyna hvort það gangi.”

Ef ekki ríkið, þá einhver annar

Gunnar segir brýnt að hafa sterkari meirihluta sem hefur stöðu til þess að láta til sín taka, til að mynda varðandi raforkuflutninga til Eyjafjarðar og framkvæmdir við flugvöllinn. 

„Það hefur skort meiri ákveðni í því hvernig við ætlum að gera þetta og ganga til verka gagnvart ríkinu. Og ef ríkið er ekki til þá eigum við að stíga inn,” segir hann. „Ég spái því að á næsta kjörtímabili verður um tvær leiðir að ræða: Annað hvort harðari pólitík í bæjarstjórninni eða þá að við förum í enn meiri samræðupólitík eins og hefur verið viðrað í þessum hópi. Við þurfum að grípa til annarra aðgerða heldur en við höfum verið með hingað til. Og það er ekki í boði að vera í status quo.” 

Halla segir brýnt að stíga fastari skref gagnvart ríkinu. 

„Og ef ríkið er ekki til þá fáum við einhverja aðra með okkur.” 

Hilda Jana segir sveitarfélagið ekki hafa staðið í lappirnar gagnvart ríkinu. 

„Við eigum að vera sterkari sem teymi og þurfum að berja í borðið og láta í okkur heyra. Akureyri er eina sveitarfélagið utan stóra höfuðborgarsvæðisins sem hefur einhvern raunverulegan kost á því að leiða umræður um byggðaþróun.” 

„Takið okkur bara inn”

Gunnar segir Akureyri hafa misst stöðu sína á landsbyggðinni og breytingar í pólitíkinni séu nauðsynlegar til að byggja upp atvinnulífið. 

„Við gerum það ekki með skiptingu í meiri- og minnihluta, nema með enn stærri meirihluta. Við þurfum að mynda hér sterkari samstöðu. Þá bara býð ég ykkur upp á það, takið okkur bara inn. Ég held að með því að hafa breiðari meirihluta, með okkur, þá er bara alveg áræðanlegt að við náum lengra.” 

Halla segist lengi hafa talað fyrir sterkari meirihluta og það sé eitthvað sem ætti að prófa. 

„Hins vegar erum við nú í meirihlutaviðræðum, sömu flokkar og áður, og við gerum okkur vonir um að það klárist á næstu dögum.” 

Vill meirihluta í innra starfi en samstöðu gagnvart ríkinu

Spurð hvort til greina komi að mynda sterkan fjögurra flokka meirihluta segir Hilda Jana að flokkarnir þrír séu trúir þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir. 

„Við erum ekki að fara að ræða neinn annan valmöguleika á þessu stigi. Hins vegar tel ég varðandi málefni, sem eru stærstu málin, samskipti ríkis og sveitarfélaga og stefnumörkunin almennt, þar ættum við að líta á okkur sem eina heild sem stendur saman, til dæmis í raforkuflutningum sem eru algjörlega óásættanlegir, eða í flugvallarmálunum. Við erum að verða eftir í þessari baráttu og þar getum við staðið betur saman, burt séð frá innri stjórnsýslu Akureyrarbæjar,” segir hún. 

Gunnar er ósammála þessu. 

„Annað hvort erum við í minni- og meirihluta, eða við erum að vinna saman. Það þýðir ekkert að segja, við erum í meirihluta og þið í minnihluta og svo bara gerið þið eitthvað,” segir hann.  

Áttu við að það sé meiri og minnihluti í innra starfi bæjarins, en þegar svo kemur til þess að berja í borðið þá eigið þið öll að standa saman sem ein heild? 

„Bara sem bæjarbúar,” segir Hilda Jana. „Ef Gunnar Gíslason hefur tengsl inn í ríkisstjórnarflokk sem hann getur nýtt þá á hann að gera það, burt séð frá því hvort hann sé í meiri- eða minnihluta.” 

Leggur til meirihluta D, L og B 

Gunnar svarar þessu svo: „Ég held að það væri langsterkast fyrir bæinn, myndum annað hvort heildarsamband hérna í bæjarstjórninni, eða, með fullri virðingu fyrir Samfylkingunni og Hildu Jönu, þá held ég að sterkasti meirihlutinn sem væri settur saman væri sjö manna meirihluti Framsóknar, L lista og Sjálfstæðisflokks.” 

Halla segir það hafa verið ákveðið strax á kosninganótt að reyna samstarf gamla meirihlutans. 

„Og við erum bara trú því eins og er.” 

Spurð hvort þetta verði meirihlutinn segir Hilda: „Það er ekkert í höfn fyrr en það er í höfn.” 

Skiptar skoðanir um ráðningu nýs bæjarstjóra

Varðandi ráðningu bæjarstjóra undirstrikar hún að Samfylkingin vilji það og Halla segir að það sé eitt af því sem eigi eftir að ræða. Gunnar tekur fram að hann falist ekkert sérstaklega eftir bæjarstjórastóli, en telji bæjarstjórnina sterkari með flokksleiðtoga sem bæjarstjóra. 

Hlusta má á viðtalið við Hildu Jönu, Höllu og Gunnar í heild í spilaranum hér að ofan.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV