Gunnar Bragi: Sigmundur óskoraður leiðtogi

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir úrslitin á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi sýna að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé óskoraður leiðtogi flokksins. Hann vonast enn fremur til að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra endurskoði ákvörðun sína og haldi áfram sem varaformaður flokksins.

Sigmundur Davíð hlaut afgerandi stuðning sem oddviti Framsóknarmanna í kjördæminu eða 72 prósent atkvæða. Talað hafði verið um ögurstund fyrir Sigmund Davíð – hann þyrfti á góðri kosningu að halda sem veganesti á flokksþing flokksins í næsta mánuði. 

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að vissulega sé þungu fargi létt af stuðningsmönnum Sigmundar. „Já, við töldum reyndar að hann myndi hafa þetta í fyrstu umferð en þorðum varla að vona að þetta yrði svona afgerandi. En það er allavega ljóst með þessum úrslitum að Sigmundur Davíð er óskoraður leiðtogi flokksins,“ segir Gunnar Bragi – hart hafi verið sótt að formanninum í kosningabaráttunni sem geri þennan sigur enn sætari.

Ráðherrann, sem leiðir lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi, segir úrslitin í dag sýna að sá sem gangi með formannsframboð gegn Sigmundi í maganum eigi ekki að búast við miklum árangri. „Nei. Það eru auðvitað allir í framboði en sá sem ætlar í framboð gegn Sigmundi á mjög litlar vonir um einhvern árangur því þessi úrslit styrkja stöðu hans á flokksþinginu. Ég held reyndar að þetta verði aðeins spurning hversu stór sigurinn verður – hversu mörg atkvæði hann fær.“ Úrslitin séu skýr skilaboð.

Eitt framboð er þegar komið; Sveinbjörn Eyjólfsson lýsti því heldur óvænt yfir á miðstjórnarfundinum að hann ætlaði að gefa kost á sér. Hann sagðist reyndar ætla að draga sitt framboð til baka færi Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra fram. Yfirlýsing hans kom mörgum í opna skjöldu þar sem hann sagðist ekki ætla að gefa kost á sér sem varaformaður við núverandi stjórn og nú þegar hafa þrjú Framsóknarfélög skorað á Sigurð að gefa kost á sér.

Breyta þessi úrslit einhverju fyrir Sigurð Inga? „Nei, ég vona bara að hann endurskoði sína yfirlýsingu og vil nú túlka tóninn þannig að það sé ekkert útilokað að það gerist. Nú, ef það gerist ekki þá kjósum við bara annan varaformann. En ég hefði viljað hafa hann þarna áfram.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi