Gunnar Bragi kannast ekki við óánægju

23.12.2015 - 08:10
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, kannast ekki við að samráðherrar hans í ríkisstjórninni séu ósáttir við yfirlýsingar hans um viðskiptaþvinganir við Rússa. „Nei, enda held ég að ef þetta væri rétt þá hlytu þeir að segja þetta við mig,“ segir Gunnar Bragi í samtali við fréttastofu í morgun. Enginn hafi rætt þetta við hann.

 

Fram kom á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vilji fara sér hægt varðandi afstöðu Íslands til málsins. Og að samráðherrar Gunnars væru ósáttir við hversu  afdráttarlaus utanríkisráðherrann hefur verið.

Gunnar Bragi segist ekki vita á hvaða forsendum það ætti að gerast - að endurskoða afstöðu Íslands gagnvart þessum viðskiptaþvingunum. „Það eru það miklir hagsmunir í húfi fyrir Ísland að vera stuðningsmenn laga og reglu og mótmæla því þegar alþjóðalög eru brotin.“

Gunnar Bragi segir ekki tímabært að draga til baka stuðning Íslands við þessar viðskiptaþvinganir - ástandið sé það sama.  Og að ríkisstjórnin hljóti að standa við það sem hún ákvað - að taka þátt í þessum þvingunum. „Þetta var allt samþykkt í ríkisstjórnin.“  

Ráðherrann segist þó vera meðvitaður um að þetta komi sér illa fyrir ákveðin byggðarlög. „Og það er það sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af. Ég vona að ríkisstjórnin geti þá samþykkt einhverjar mótvægisaðgerðir.“

Hann segir að ríkisstjórnin ætti að skoða að aðstoða þau sveitarfélög sem hafi orðið fyrir mestum skakkaföllum. „Fyrirtækin hafa sjálf sagt að þau geti borið eitthvað tap af þessu. En svo verða menn líka að setja þetta í samhengi að verð á heimsmörkuðum hefur áhrif á þetta. En svo vonar maður auðvitað að þetta leysist fljótlega.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi