Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gullhúðuð skál sem hvetja skal til heimsfriðar

Mynd:  / 

Gullhúðuð skál sem hvetja skal til heimsfriðar

04.01.2019 - 18:20

Höfundar

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf fyrir stundu. Við það tilefni notaði Elísabet tækifærið og afhenti Ríkisútvarpinu litla skál með vatnsdropa, sem hún sagði sjálfsprottna tjörn.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Þetta er í 63. sinn sem veitt er viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og þetta eru því elstu verðlaun Íslands á sviði bókmennta. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Eitt mikilvægasta framlag hennar til íslenskra bókmennta eru skrif hennar um kvenlíkamann, kynvitundina og skömmina. Hún hefur fært í orð þá hluti sem legið hafa í þagnargildi langt fram á okkar daga, og gerði það áður en samfélagið var tilbúið að hlusta. Það er fyrst með nýrri kynslóð kvenna og í kjölfar samfélagsmiðlahreyfinga síðustu ára sem samfélagið hefur öðlast getu að meta þetta framlag til fulls.“ 

Við afhendingu viðurkenningarinnar í dag afhenti Elísabet Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra, fyrir hönd RÚV, skál með vatnsdropa í sem endurspegla á eins konar tjörn, sjálfsprottna tjörn. „Já, ég var að hugsa um það að við myndum bara öll setja skál út í glugga með vatni í, þá kæmi friður í heiminum og við myndum smám saman senda út góðar hugsanir og öll stríð myndu hætta,“ sagði Elísabet Jökulsdóttir í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur strax í lok verðlaunaafhendingarinnar. Elísabet hefur bryddað upp á ýmsum gjörningum í gegnum tíðina, sem vakið hafa mikla athygli.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir á ekki langt að sækja skáldgáfuna. Foreldrar hennar og systkinin öll hafa skrifað fleiri eða færri bækur. Elísabet er dóttir leikskáldsins Jökuls Jakobssonar og blaðamannsins og rithöfundarins Jóhönnu Kristjónsdóttur. Bræður Elísabetar eru þeir Illugi og Hrafn Jökulssynir auk þess sem Unnur Þóra Jökulsdóttir er hálfsystir hennar. Elísabet er þó jafnvel ein sú afkastamesta í fjölskyldunni. Hún sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Dans í lokuðu herbergi, fyrir tæpum þrjátíu árum eða árið 1989 og gaf hana sjálf út. Síðan hefur hver bókin rekið aðra, smáprósar, ljóð, smásögur auk þess sem Elísabet hefur skrifað leikrit sem að minnsta kosti sum hver hafa verið gefin út á bók auk þess að vera leikin á sviði. 

Umfjöllunarefni Elísabetar hafa verið af margvíslegum toga en konan og stúlkan, barnið hafa gjarnan verið í brennidepli í textum sem virðast eins og næstum því skapa sig sjálfir á ákafri leit og sjálfskrufningu þar sem raunveruleiki og fantasía takast á og er þá draumurinn oftar en ekki raunverulegri en efnisheimurinn enda búa í draumunum ást og sorg og endalaust flæði sem samsvarar náttúrunni.

Viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Elísabetu Jökulsdóttur á afhendingu Menningarviðurkenninga RÚV má heyra með því að smella á myndina hér að ofan.