Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gular viðvaranir í gildi á nokkrum stöðum

20.01.2020 - 07:07
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Útlit er fyrir hvassa suðvestanátt á landinu, jafnvel storm á stöku stað, segir í hugleiðingum veðurfræðings. Gera megi ráð fyrir að víða gangi á með éljum, en að það létti til austanlands. Veður er að kólna og síðdegis verður hiti yfirleitt kringum frostmark, segir veðurfræðingur. Hvass vindur og snjóél geta valdið erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð og eru gular viðvaranir í gildi í dag á nokkrum landsvæðum.

Á morgun lægir vindinn og það dregur úr éljunum, eitthvað af þeim verður þó áfram á sveimi.

Annað kvöld má síðan búast við vaxandi sunnanátt með slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands og fer að hlýna.

Á miðvikudag er stíf sunnanátt í kortunum með rigningu og hlýindum, en snýst síðan til vestanáttar og kólnar og um kvöldið verða komin snjóél aftur á vesturhelmingi landsins. Það hefur verið órólegt veður á landinu undanfarið og það eru ekki horfur á að það breytist á næstunni.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV