Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðsbréf Einsteins á uppboð

Mynd:  / 

Guðsbréf Einsteins á uppboð

04.12.2018 - 17:10

Höfundar

Bréf sem vísindamaðurinn Albert Einstein ritaði árið 1954 er orðið að nánast helgum grip, en búist er við að það verði selt á vel á annað hundrað milljónir króna á uppboði hjá Christie's uppboðshúsinu í kvöld.

Hvað gerist þegar menningarheimum lýstur saman, þegar ein heimsýn rekst á aðra? Dæmin úr mannkynssögunni eru mýmörg og yfirleitt fer þetta illa. Það sýður oftar en ekki upp úr, átök hefjast, hjaðningavíg, jafnvel heilu styrjaldirnar.

En í einu litlu bréfi, sem lætur lítið yfir sér og var handskrifað og dagsett þann þriðja janúar árið 1954 sjá menn slíkan árekstur milli hugmyndakerfa, jafnvel þó að bréfið sem slíkt hafi ekki degið neinn slíkan dilk á eftir sér. Þetta bréf er nú komið í heimspressuna, það er á leið undir hamarinn og heitir því dramatíska nafni Guðsbréfið.

Bréfið var sent frá Stanford háskóla  til þýska heimspekingsins Erics Gutkind sem þá bjó annars staðar í Bandaríkjunum. Hann hafði eins og fleiri hugsuðir og listamenn af þjóð gyðinga flúið yfir hafið við valdatöku nasista á fjórða áratugnum. Hann var mistýker sem trúði staðfastlega á yfirburði gyðinga í bæði andlegum málum og vitrænum og í bók sem hann gaf út árið 1952 hélt hann þessum yfirburðum fram á prenti. Bókin hét upp á ensku Choose Life - The Biblical Call to Revolt eða Veldu lífið - biblíulegt ákall um uppreisn og eintak af henni sendi Gutkind til manns sem var einmitt skýrt merki um andlega og vitsmunalega yfirburði gyðinga. Móttakandinn var frægasti vísindamaður samtímans og líklega allra tíma: Albert Einstein.

Andsvar við umdeildum hugmyndum

Það var þá sem Einstein tók upp pennan, til að þakka fyrir sendingu Gutkinds en líka setja ofan í við hann og bréfið sem Einstein skrifaði höfundinum hefur, frá því það fannst árið 2008, gengið undir nafninu Guðsbréfið. Þessi merkimiði fer reyndar í fínustu taugar Einstein-fræðinga og ævisagnaritara vísindamannsins fræga því að það virðist gefa til kynna að þarna hafi Einstein í eina skiptið tjáð sig um skoðanir sínar á hugmyndinni um guð eða um sýn sína á egið trúarlíf. Svo var ekki. Og það var heldur ekki svo að bréfið væri lagt undir hugmyndina um guð, pælingar þar um komu aðeins fyrir í einni málsgrein sem var svo hljóðandi:

Orðið Guð er ekkert fyrir mér nema tjáning á og afleiðing af mannlegum veikleikum. Biblían saman safn helgra texta en samt nokkuð frumstæðra þjóðsagna.Engin túlkun á textanum, sama hversu fínleg, getur (fyrir mig) breytt nokkru þar um.

Bréfið var auðvitað lengra en það eru þessi orð sem að gefa því uppnefnið: Guðsbréfið, en það á nú að bjóða upp hjá Christie’s uppboðshúsinu í kvöld. Þar er búist við að það fari á a.m.k. milljón bandaríkjadali. Þegar það kom fram, úr hirslum ættingja Erics Gutkind árið 2008 seldist það á 404 þúsund dali á uppboði í London.

Helgur gripur til sölu

Hjá Christie's uppboðshúsinu leggja menn mikið í söluna. Sérstakt myndband um bréfið, hæfilega dramatískt, hefur verið útbúið til að auglýsa gripinn upp. Í ljós kemur að jafnvel trúleysingjar eru gjarnir á að finna sér helga texta og Guðsbréfið er orðið einhvers konar táknmynd fyrir afneitun á tilvist Guðs, vegna þess að þessi erkivísindamaður með úfna hárið, stundum með tunguna út úr sér, sem við höfum prentað á veggspjöld og boli áratugum saman, Albert Einstein, hélt þar á penna.

En auðvitað er málið eitthvað aðeins flóknara en þetta. New York Times fjallar um málið og talar auðvitað við helstu Einsteinfræðinga veraldarinnar. Bent er á að pælingar um guð og barnatrú Einsteins sjálfs hafi komið fyrir í fleiri bréfum en þessu eina og í fleiri skrifum hans. Einn fræðingana Walter Isaacson er á því að enginn ætti að draga neinar ályktanir um hvað Einstein fannst um guð út frá þessu eina bréfi og hann bendir á að þrátt fyrir að Einstein sé í hugum margra einhvers konar erkitýpa um óhagganleg vísindi þá hafi hann sjálfur skipt um skoðun í ýmsum efnum í gegnum lífið, rétt eins og flestir, ef ekki allir, aðrir.

Annar fræððingur Rebecca Newberger Goldstein bendir á að Einstein hafi, rétt eins og ýmsir fleiri eðlisfræðingar, hugsað og skrifað um hugmyndina um guð, en fyrir honum hafi hugmyndin verið eins konar táknmynd eða metafóra um algildan sannleika og þorsta mannsins eftir slíku í lífi sínu. Einstein lék sér að hugmyndinni um guð, segir Goldstein í New York Times.

Ósammála yfirburðum

Bréfið hins vegar, sem selst þá líklega í kvöld á einhverjar bullupphæðir, snýst að mestu hluta um annað en guð. Einstein líkaði ekki tal Gutkind um yfirburði gyðinga hér á jörð, en þær pælingar voru auðvitað skrifaðir í kjölfar helfararinnar og stofnunar Ísraelsríkis fyrir botni miðjarðarhafs. Enn einn fræðimaðurinn sem New York Times vitnar til, Dianna Kormos-Buchwald, bendir á að Einstein hafi verið ósáttur við að vera tekinn sem dæmi um vitsmunalega yfirburði gyðinga, þó svo að hann hafi verið stolltur af gyðinglegum uppruna sínum. Bréfið var einfaldlega góðlátleg leið Alberts Einstein við að segja heimspekningnum að honum líkaði hvorki við hann né skoðanir hans. Herhvöt heimspekingsins til gyðinga víða um heim gekk einfaldlega of langt. En í bréfinu er Einstein kurteis, þakkar fyrir lánið á bókinni (ætli hún hafi reyndar ekki verið hugsuð sem gjöf) og segir að þó að hugsun þeirra tveggja ferðist ekki alveg eftir sömu brautum þá myndu þeir eflaust ná betur saman ef þeir hittust til að tala um atriði sem hönd væri á festandi. Vísindamaðurinn kvittar síðan fyrir:

Með vinsamlegum þökkum og bestu kveðjum,

Yðar,

A. Einstein

Fjallað var um bréf Einsteins, sem oft er kallað Guðsbréfið í Víðsjá á Rás 1.