Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Guðni settur í embætti forseta Íslands í dag

01.08.2016 - 07:36
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ólafur Ragnar Grímsson lét af embætti forseta Íslands á miðnætti í gærkvöld eftir 20 ár á Bessastöðum. Forsetavaldið er nú í höndum forseta Alþingis, forseta Hæstaréttar og forsætisráðherra og verður það fram til klukkan rúmlega 16 en þá verður Guðni Th. Jóhannesson settur í embættið.

Bein útsending frá embættistökunni verður í Sjónvarpinu og hefst útsending klukkan 15:50. Útsending á Rás 1 hefst klukkan 15:30 og þá verður embættistakan jafnframt táknmálstúlkuð á hliðarrásinni RÚV 2. 

Athöfnin verður í höndum handhafa forsetavalds. Greint var frá því í síðustu viku að athöfnin yrði mun látlausari en verið hefur að beiðni Guðni - til að mynda er ekki gerð sú krafa að menn klæðist kjólfötum og konur síðkjólum né beri orður.  

Helstu embættismenn þjóðarinnar eru viðstaddir embættistöku forseta - forstöðumenn ríkisstofnana, alþingismenn, fulltrúar sveitarfélaganna, ráðherrar og sendimenn erlendra ríkja. Samkvæmt fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir að kostnaðurinn við athöfnina yrði um 5 milljónir íslenskra króna.

Guðni hefur lýst því yfir að hann ætli að búa á Bessastöðum. Ólafur Ragnar flutti þaðan út í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu var ólíklegt að það tækist að gera húsið klárt fyrir nýja forsetann og fjölskyldu hans en hann hefur leigt út húsið sitt á Seltjarnarnesi. 

Guðni var kjörinn forseti í forsetakosningunum 25. júní.  Hann hlaut rúm 39 prósent atkvæða. Hann er fæddur 1968 og er því yngsti forseti lýðveldisins frá upphafi. Hann er með doktorspróf í sagnfræði og starfaði sem háskólakennari. Hann er kvæntur Elizu Reid og eiga þau saman fjögur börn. Frá fyrra hjónabandi á Guðni eina dóttur.