Guðni hitti Alex Ferguson í Manchester

Mynd með færslu
 Mynd:

Guðni hitti Alex Ferguson í Manchester

01.03.2019 - 10:26
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hitti Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóra enska liðsins Manchester United, um síðustu helgi. Guðni var ásamt fjölskyldu sinni á Old Trafford-leikvanginum um helgina þegar United gerði jafntefli við Liverpool.

Guðni hefur haldið með Manchester United frá æsku, var á ferð með Elizu Reid, eiginkonu sinni, og fjórum börnum þeirra, þeim Duncan Tindi, Donald Gunnari, Sæþóri Peter og Eddu Margréti. Þau hittu Ferguson og fengu einkaskoðunarferð um völlinn.

Guðni og fjölskylda sáu einnig leik Burnley og Tottenham um helgina. Þar var landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson í góðu stuði með Burnley og lagði meðal annars upp seinna mark liðsins í sigurleik.

Að mörgu þurfti að huga á Old Trafford vegna komu forsetans og var stuðningsmannaklúbbur Manchester United á Íslandi fenginn til þess að hafa milligöngu um ferðina á völlinn.

Í færslu á Facebook-síðu klúbbsins er haft eftir Rúnari Ívarssyni, formanni klúbbsins, að aðrir tengiliðir stuðningsmannaklúbba hafi í fyrstu ekki trúað því að þjóðhöfðingi væri að koma í heimsókn. „Að mörgu þurfti að huga, svo sem öryggisgæslu og samskiptareglum við móttöku þjóðhöfðingja. Þegar á staðinn var komið fékk fjölskyldan sæti í heiðursstúkunni og var boðið í mat í Chairman‘s Lounge á leikdegi. Næsta dag fór fjölskyldan í skoðunarferð um Old Trafford.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Tengdar fréttir

Innlent

„Ég held að maður verði bara háður þessu“