Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðni enn með mest fylgi en aðrir sækja á

27.05.2016 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Axel Sigurðarson - Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson mælist með mest fylgi forsetaframbjóðenda í nýrri könnun Maskínu eða 59,1%. Könnunin fór fram dagana 20. til 27. maí. Það er nokkru minna fylgi en í síðustu könnun Maskínu en þá mældist Guðni með 67,2%, dagana 10.-13. maí.

Davíð Oddsson bætir við sig nokkru fylgi og fer úr 14,8% í 19%. Andri Snær Magnason bætir sömuleiðis við sig fylgi og fer úr 12,1% í 15%.  Þá mælist Halla Tómasdóttir með 3,4% fylgi en var með 2,9% áður. Aðrir frambjóðendur mælast með 1% eða minna.

Í tilkynningu frá Maskínu kemur fram að Guðni sé með marktækt meiri stuðning á meðal kvenna en karla og að þrefalt fleiri karlar en konur styðji Davíð. Þá ætla einnig fleiri konur en karlar að kjósa Höllu og Andra Snæ. Hann nýtur auk þess meira fylgis hjá yngri kjósendum.

Svarendur voru 839 talsins og fór könnunin fram á netinu.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV