Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðmundur leiðir Íslensku þjóðfylkinguna

Guðmundur Karl Þorleifsson
Guðmundur Karl Þorleifsson, oddviti Íslensku þjóðfylkingarinnar. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íslenska þjóðfylkingin býður fram í borgarstjórnarkosningum í vor í fyrsta skipti. Helstu markmið flokksins eru að beita sér gegn mosku í Reykjavík og gera borgina fjölskylduvænni en áður. 

Guðmundur Karl Þorleifsson, rafiðnfræðingur og formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, leiðir listann. Hjördís Diljá Beck, félagsliði skipar annað sæti listans. Í þriðja sæti er Jens G. Jensson, skipstjóri. Íslenska þjóðfylkingin reiknar ekki með að bjóða fram víðar en í Reykjavík. Flokkurinn vill fresta framkvæmd borgarlínu. 

„Við viljum beita okkur fyrir því að hafna þéttingu byggðar á kostnað grænna svæða. Við viljum byggja upp leikskóla og róluvelli. Við viljum beyta okkur fyrir breyttri menntastefnu í Reykjavík, þannig þau þroskist betur og nái betri árangri. Við viljum hafna mosku og moskubyggingum,“ segir Guðmundur Karl.

Í síðustu alþingiskosningum dró Þjóðfylkingin alla framboðslista sína til baka. Yfirkjörstjórnir tilkynntu Íslensku þjóðfylkinguna til lögreglu fyrir skjalafals, þar sem nokkrir meðmælendur framboðslistanna könnuðust ekki við að hafa skrifað sig á lista. Guðmundur segir að þetta framboð verði ekki dregið til baka.

hvers vegna ættu kjósendur að treysta ykkur núna?
„Það er vegna þess að þetta er í ferli hjá hinu opinbera. Við bíðum eins og þið, niðurstöðu þessa máls. Þar verða allar undirskriftir undirritaðar með fulltrúum, einhverjum í fulltrúaráði fólksins. Þannig þær verða allar gildar.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV