Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðmundur að taka við landsliði Barein

Mynd með færslu
 Mynd:  - Twitter

Guðmundur að taka við landsliði Barein

10.04.2017 - 22:30
Handknattleiksþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson kom til Barein í kvöld, og er búist við því að hann verði kynntur sem nýr landsliðsþjálfari karlalandsliðs þjóðarinnar á morgun. Handknattleikssamband Barein birti myndir og myndskeið af Guðmundi við komuna til landsins í kvöld.

Guðmundur sagði í viðtali við RÚV á miðvikudag að hann væri á leið utan í dag og yrði væntanlega kynntur sem þjálfari nýs liðs á morgun. Miðað við þær upplýsingar er auðvelt að lesa í komu hans til Barein í kvöld og myndirnar frá handboltasambandi Barein, að um landslið Barein sé að ræða.

Í viðtalinu í síðustu viku talaði Guðmundur þó ítrekað að um verkefni væri að ræða. Því má telja líklegt að samningur hans við Barein verði aðeins tímabundinn.

Mynd: Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson / RÚV

Guðmundur lét af störfum sem landsliðsþjálfari Danmerkur í upphafi mars, en hann stýrði danska landsliðinu frá 2014-2017 og gerði Dani að Ólympíumeisturum í Ríó de Janeiro síðasta sumar. Áður hafði Guðmundur þjálfað íslenska landsliðið með frábærum árangri þar sem Ísland vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM 2010. Þá hefur Guðmundur stýrt fjölda félagsliða, meðal annars Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi og GOG í Danmörku.

Barein var meðal þátttökuþjóða á HM 2017 í Frakklandi og endaði þar í 23. sæti. Næsta stórmót Barein er Asíukeppnin 2018, en Barein lék til úrslita í Asíukeppninni 2014 og 2016.