Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guðmundi Steinssyni aldrei gerð betri skil

Mynd: Hörður Sveinsson / Þjóðleikhúsið

Guðmundi Steinssyni aldrei gerð betri skil

15.03.2017 - 10:05

Höfundar

„Í engri sýningu hef ég áður séð leikskáldinu Guðmundi Steinssyni gerð betri og fjölþættari skil,“ segir María Kristjánsdóttir, leikhúsrýnir Víðsjár, um leikverkið Húsið sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu. „Þarna er hann ákafi predikarinn, dansandi á mörkum hvunndags og fantasíu þegar hann nánast barnslega írónískur afhjúpar hræsnisfullt firrt samfélag okkar.“

María Kristjánsdóttir skrifar:

„Það var ánægjulegt að mæta Guðmundi Steinssyni aftur í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöld þegar frumsýnt var verk hans Húsið. Leikrit sem beðið hefur í nær fimmtíu ár eftir að komast á fjalirnar. Sennilega hefðum við aldrei komist í kynni við það nema vegna þess einstæða og myndarlega framtaks bókaútgáfunnar Ormstungu að gefa út öll leikrit hans í byrjun þessarar aldar  en Jón Viðar Jónsson leiklistargagnrýnandi hafði umsjón með því verki.

Ég á að minnsta kosti ekki auðvelt með að ímynda mér,  á okkar hraðskreiðu óreiðukenndu tímum, einhvern dramatúrg eða leikhúsáhugamann puðandi uppi á háalofti í gegnum stafla af óprentuðum frumhandritum í leit að gullmolanum.  En hérna er það verkið sem aldrei var sýnt, verk sem afhjúpaði samtíma sinn og greindi hvers væri að vænta í okkar þá fjarlægja nútíma. Eitt róttækasta og ef til vill einkalegasta verk Guðmundar. Rammíslenskt og alþjóðlegt í senn.

Það er komið á svið í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, í leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar og með leikarahópi klæddum búningum Filippiu Elísdóttur þar sem nánast hver maður ræður við viðfangsefnið. Verkið segir í stuttu máli frá erkitýpískum kristilega þenkjandi efnuðum hjónum Páli og Ingu sem byggja, eins og þorri okkar Íslendinga, sjálfsmynd sína á hlutunum sem þau geta eignast og reisa sér því risastórt glæsihús yfir sig og börnin þrjú. Þar er þó ekki lengur pláss fyrir hina kærleiksríku Katrínu móður  Páls svo að hún er flutt á elliheimili, ræturnar  höggnar brott. Strax í veislunni sem hjónin halda, svo þau eða aðallega Páll geti speglað sig í augum kunningjanna og hreykt sér, afhjúpast brestir í hjónabandinu. Húsið reynist ekki öruggt skjól. Undarlegir atburðir fara að gerast.

Benedikt velur að sviðsetja verkið í  þeim tíma sem það er skrifað. Þannig skapar hann rétta fjarlægð, nær stöðugt að vekja þá spurningu: Hvað hefur eiginlega breyst?  Tónlistin sem  Davíð Þór Jónsson velur, stígur dans á milli húmors og dramtísks þunga og styður titlana sem Benedikt hefur kosið að hafa sem yfirskrift hvers atriðis , en þar vísar hann skemmtilega í fyrstu verk Guðmundar og áhuga hans á aðferðum þýskra leikskálda. Snorri Freyr Hilmarsson  skapar bestu leikmynd sem ég hef séð úr hans smiðju, úr kúbískum formum , mest hringlaga og sívölum veggjum og innanstokksmunum sem hreyfst geta með hringsviðinu og hægt er að renna sjálfum á ýmsa vegu.  Það verður til völundarhús þar sem búin er til, jafnvel með fótataki einu saman  á bak við vegg, sterk tilfinning fyrir óendanlegum ranghölum og miklum geimi. Frábær írónísk hugmynd, fjölbreytt verður hún líka í litadýrð lýsingar Halldórs Arnar Óskarssonar sem beitt er bæði í þágu hrynjandi framvindu og til að magna upp stemningar. Yfir öllu saman trónir frá upphafi gríðarlegt hringlaga loftljós sem fær á glæsilegan hátt nýtt líf og tákngildi í lokasenunni.

Ég sat að vísu ekki ekki með handritið í kjöltu mér, en heyrðist að Benedikt hafi hvergi hnikað orði í texta höfundar. Hann stílfærir af mikilli nákvæmni leik hjónanna og kunningja þeirra sem Guðmundur beinir íróníu sinni að. Katrín, börnin og ókunnir eða sem kalla mætti þau lifandi, er líka haldið strangt innan stílfærslu ramma verksins þó eðlilegri séu og ekki ofurseld íróníunni. Það er ekki fyrr en Benedikt tekur sér þann höfundarrétt að breyta upreisnargjarnri 68. kynslóðinni í flóttamenn,  lætur alþjóðlegan veruleika nútímans ryðjast inn í verkið, að  stílinn fær að  riðlast en allt  er það í anda Guðmundar.

Ég satt að segja stundi þegar ég heyrði að Guðjón Davíð Karlsson ætti að leika burðarhlutverkið Pál. Þó Guðjón Davíð hafi gert ýmsa góða hluti síðastliðin ár, þá stundi ég. Stundi því að stundum finnst mér að það sé lygi að þjóðin telji á fjórða hundrað þúsund, finnst að þau hljóti bara að vera fjörutíu þúsund, jafnvel fjögurþúsund. Svo fáum einstaklingum er stöðugt haldið að okkur á menningarsviðinu jafnt í leikhúsunum sem í fjölmiðlum. Sömu andlitin, sömu fjölskyldurnar og auðvitað erfingjar hins menningarlega auðmagns einsog  Bordieu benti eitt sinn á. Það er ekki bara í viðskiptaheiminum sem „Engeyjarættir“ ávaxta sitt pund.

En svo mátti ég skammast mín eins og oft áður. Fordómarnir láku af mér á frumsýningunni. Guðjón Davíð fór með eindæmum vel með hlutverk hins óþolandi karlpungs Páls sem álítur sig eins og menn af hans kynslóð réttborinn til að stjórna og móta líf konu sinnar og barna. Hann reynir aldrei að vera fyndinn, svo að klisjurnar lifna á vörum hans og fá oft víðari skírskotun, vekja endalaust hlátur. Tímasetningar eru nákvæmar í þeim oft óendanlega góða tíma sem leikstjórinn gefur mörgum sitúasjónum, akkúrat þegar maður hugsar hvað þolir hún þetta lengi þá er kippt yfir í nýja athöfn. 

Vigdís Hrefna Pálsdóttir er líka örugg í stílfærslunni og nær að sýna enn fleiri hliðar á persónu eiginkonunnar Ingu. Eiginkonunnar sem veit sinn stað, prúð og þæg á yfirborðinu, en undir krauma bældar tilfinningar  og þegar hún þarf að verja „eignir sínar“ þá koma skapsmunir konunnar í ljós.. Staða Ingu sem keypts kyntákns og þræls eru annars afhjúpaðir snilldarlega í átriði þegar Páll slær alla viðstadda gæja út með því að gefa Ingu miljónakróna hálsfesti í innflutningsveislunni.

Kristbjörg Kjeld sem Katrín amman , tákn kærleikans hjá Guðmundi, er undur mjúk og falleg í hlutverki sínu, drengirnir litlu, þeir Emil Adrian Devaney og Þorsteinn Stefánsson  stóðust þolraun frumsýningar  og héldu aðdáunarlega vel í við mótleikara sína og hlátrasköll salarins í íróníu upphafssenunnar.  Fjöldi annarra leikara innlendra og erlendra stíga á svið í sýningunni, minnistæðust af þeim var Birgitta Birgisdóttir  sem dansandi  tálkvendi  í veislu í slæðubúningi sem eins og margir aðrir búningar Fillipíu Elísdóttur eru í pastellitum áttunda áratugarins. Þeir  undirstrikuðu  stéttir og stöðu og einn alltof stuttur ferkantaður jakki á karlmanni tókst jafnvel að minna okkur á forsætisráðherra sem  gengur í svo hlægilega litlum jakkafötum að maður er ætíð hræddur um að þau muni rifna utan af honum.

Ég gæti haldið áfram að tala um þessa sýningu í allan dag. En læt mér nægja að segja að lokum að í engri sýningu hef ég áður séð leikskáldinu Guðmundi Steinssyni gerð  betri og fjölþættari skil. Þarna er hann ákafi predikarinn, dansandi á mörkum hvunndags og fantasíu þegar hann nánast barnslega írónískur afhjúpar hræsnisfullt firrt samfélag okkar – og víðsýni, greinandi alþjóðasinninn  sem, þegar við hættum að hlæja, bendir á leiðina út úr vandanum: Við megum ekki slá eign okkar á nokkurn skapaðan hlut hvorki manneskjur né hús. Í víðáttu geimsins erum við örsmá og þá stuttu stund er við dveljum hér er okkar eina vörn og skjól  ylurinn af öðrum mannverum.“