Guðlaugur hittir aðstandendur Hauks á morgun

12.03.2018 - 19:38
Mynd með færslu
 Mynd: Youtube
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, mun á morgun eiga fund með fjölskyldu og aðstandendum Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið í stríðsátökum í Afrín-héraði. Þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá upplýsinga-og greiningardeild ráðuneytisins.

Móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, gagnrýnir íslensk stjórnvöld á Facebook-síðu sinni vegna máls sonar síns og segir þau gagnslaus.

„Þau eru öll af vilja gerð en vita bara ekkert hvað þau eiga að gera til þess að fá það staðfest hvort Haukur er lífs eða liðinn. Þau hafa ekki haft beint sambandi við tyrknesk stjórnvöld, bara sendiráð og ræðismenn sem eru með þetta í "ferli", ekki heldur tyrkneska herinn, hvað þá Nató,“ skrifar Eva á Facebook-síðu sinni. 

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá utanríkisráðuneytinu, segir í samtali við fréttastofu að aðstandendur og fjölskylda Hauks hafi í dag átt fund með starfsmönnum ráðuneytisins og starfsmönnum ríkislögreglustjóra. Hún segir að ráðuneytið sé að leita allra leiða til að verða sér úti um upplýsingar, meðal annars í gegnum Rauða krossinn sem sé með starfsfólk á þessu svæði. 

María staðfestir enn fremur að Guðlaugur Þór ætli að eiga fund með fjölskyldunni og aðstandendum á morgun. Fulltrúar International Freedom Batallion komu á fund Evu  í Glasgow í síðustu viku og ræddu við hana um fall Hauks í Sýrlandi þar sem hann barðist með Varnarsveitum Kúrda.  Eva sagði eftir þann fund að það sem hafi komið fram í samtalinu þyki henni vera næg staðfesting á því að það sé nánast útilokað að hann sé á lífi.

Uppfært klukkan 21:14

Samkvæmt upplýsingum frá Einari Steingrímssyni, sambýlismanni Evu, kom fram á fundinum með ráðuneytinu í dag að eingöngu hefði verið haft samband við tyrknesk yfirvöld gegnum sendiherra Tyrklands á íslandi. Ekki hafi verið sendar neinar myndir né upplýsingar um líkamseinkenni.  Ekki hafi verið reyndar neinar aðrar leiðir til að afla upplýsinga og ekki hafi verið reynt að hafa samband beint við tyrknesk yfirvöld né NATO. Þá gagnrýnir Einar að utanríkisráðherra skuli ekki hafa haft samband við móður Hauks þrátt fyrir beiðni þar um.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi