Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Grunur um tvö kynferðisbrot í Eyjum í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur tvö mál til rannsóknar eftir nóttina þar sem grunur er um kynferðisbrot. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þá leitaði ein kona aðstoðar lögreglunnar í Eyjum vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir í fyrra á höfuðborgarsvæðinu. Hún hyggst leggja fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík.

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn, staðfestir í samtali við fréttastofu að skýrslur hafi verið teknar af þolendum en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málin tvö.

Lögreglan í Eyjum hafði í morgun greint frá helstu málum sem upp komu um helgina nema kynferðisbrotunum og tekið fram að upplýst yrði um þau eftir því sem ástæða þætti til. Fram hafði komið að í fyrrakvöld var maður handtekinn fyrir kynferðislega áreitni eftir að hann þuklaði á konu á bílastæði í Herjólfsdal.

Í tilkynningunni, eins og áður hefur komið fram, að fjórar líkamsárásir hafi verið tilkynntar til lögreglu í gærkvöld og nótt. Sú alvarlegasta hafði verið framin nóttina áður og flytja þurfti þann þolanda til Reykjavíkur með sjúkraflugi vegna innvortis blæðinga. Gerandinn fannst þótt þolandinn hafi ekki viljað segja til hans. Hann játaði árásina.

Í öðru máli veittist maður að kærustinni sinni með höggum og spörkum. Lögregla leitaði hans en fann ekki. Hin tvö málin voru minniháttar og lögregla segir að þau séu til rannsóknar.

Fíkniefnamál á hátíðinni urðu 35, sem eru nokkru færri en síðustu ár. Grunur er um sölu í tveimur málum. Þá voru 16 umferðarlagabrot kærð um helgina. Sex voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna – þar af var einn ölvaður á hesti í Vestmannaeyjabæ. Hin málin voru vegna aksturs án bílbelta, bíla sem lagt var ólöglega, of margra farþega í bíl og ökumanna að tala í síma.

„Samráðsfundi með viðbragðsaðilum á þjóðhátíð 2018 var að ljúka og talið er að gestir hafi verið 14.000 til 15.000 talsins. Það var samdóma álit viðbragðsaðila að þrátt fyrir nokkurn vind á síðasta degi hafi gengið vel að aðstoða gesti og almennt hafi skipulag gengið vel,“ segir í tilkynningu lögreglu.