Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grunur um skattaundanskot í þrjátíu tilfellum

Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson - RÚV
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir að embættið gruni eigendur þrjátíu aflandsfélaga um skattaundanskot. Þetta kom fram í máli hennar á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Fjöldi mála séu til rannsóknar.

Málin tengjast gögnum sem embætti Skattrannsóknarstjóra festi kaup á síðastliðið sumar. Síðan þá hefur farið fram ítarleg greining á gögnunum. Gögnin varða um 600 aflandsfélög í eigu um 400 Íslendinga. Í einhverjum tilvikum er um að ræða stofngögn þar sem fram kemur hvernig skuldbindingar félagsins eru færðar yfir á stjórn félagsins, sem í eru ekki raunverulegir eigendur félaganna.

Í einungis um 100 tilfellum eru raunverulegir eigendur félaganna skráðir sem hluthafar í aflandsfélögum. Þá eru um 170 tilfelli þar sem ekki kemur fram nein tenging við raunverulega eigendur félaganna.

Flest málin tengjast Landsbankanum

Flest málin sem skattrannsóknarstjóri hefur nú til rannsóknar, og fengin eru úr áðurnefndum gögnum sem keypt voru, tengjast gamla Landsbankanum. Nokkrir tugir mála tengjast Nordea bankanum. Aflandsfélögin eru flest á Bresku-jómfrúreyjum, önnur eru í Panama og á Seychelles eyjum, sem er þekkt skattaskjól.

Málin tengjast nokkrum tugum Íslendinga sem búsettir eru erlendis, og ríflega þrjátíu einstaklingar sem nú sæta rannsókn hafa áður verið til rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra. Einungis um 100 einstaklingar gerðu grein fyrir eignarhaldi sínu á aflandsfélögum, og þá heyrði til undantekninga ef tekjur voru skráðar á umrædd félög og þær færðar í skattaframtöl.

Skattrannsóknarstjóri hefur í einhverjum tilvikum aflað fjárhagsupplýsinga um eignir Íslendinga á erlendri grundu, og á þessu stigi málsins eru grunsemdir hjá skattayfirvöldum um að í þrjátíu tilvikum hafi átt sér stað skattaundanskot. Þau mál hafa verið til meðferðar hjá Skattrannsóknarstjóra og verða send Ríkisskattstjóra til frekari meðferðar.

Sambærileg gögn og eru í Panama-skjölunum

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir gögnin sem embættið keypti síðastliðið sumar að einhverju leyti sambærileg við gögn sem hafa verið til umfjöllunar í tengslum við Panama-skjölin svokölluðu. Þó virðist frekari upplýsingar um Íslendinga að finna í lekanum frá Mossack Fonseca lögmannsstofunni á Pamana. Embættið hyggst skoða frekar þær upplýsingar þegar þær komi frekar fram.

Spurð um hvaða úrræði skattrannsóknarstjóri hafi til að óska eftir frekari upplýsingum, svaraði Bryndís að það sé mjög þungt ferli. Í umræddum löndum geri innanlandslöggjöf litla eða enga kröfu um gögn varðandi viðkomandi félag, að það skili ársreikningum og svo framvegis. Þá sé erfitt að sækja fjárhagsupplýsingar, sem séu yfirleitt geymdar annars staðar en á aflandssvæðum, til að mynda í Lúxemborg. Þar sé nánast ómögulegt að nálgast frekari upplýsingar sökum bankaleyndar. Þau gögn sem embættið hafi aflað með húsleitum hafi haft mesta þýðingu, þar hafi embættið í sumum tilfellum komist yfir bankayfirlit og þess háttar.

Verði refsivert að skila ekki upplýsingum

Skattrannsóknarstjóri segir koma til greina að setja inn sérstakt refsiákvæði í skattalöggjöfina, þegar skil á upplýsingum eru ekki fullnægjandi. Þá gæti heimild til handa embættinu til að endurmeta skatta sömuleiðis komið til álita. Þessar breytingar gætu haft verulega þýðingu fyrir embættið, til að veita því vopn til að afla frekari gagna.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að um 178 mál séu til skoðunar hjá embættinu, sem fengin voru upp úr gögnum Skattrannsóknarstjóra. Þá séu 90 mál til frekari skoðunar, þar sem kreditkortafærslur koma fram. Hann segir hluta af hópnum hafa gert frekari grein fyrir sínum málum, sem embættið hyggst sannreyna.

Hann segir að skattayfirvöld hafi lengi kallað eftir frekari úrræðum til að bregðast við skattaundanskotum Íslendinga á eignum sínum erlendis. Spurð hvort embætti skattrannsóknarstjóra þurfi frekari fjárframlög til að geta unnið upp úr gögnunum sem nú liggja á borði embættisins, sagði Bryndís að hún vildi fyrst átta sig á umfangi verkefnisins áður en hún tæki afstöðu til þess.

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV