Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grunur um mansal á kampavínsklúbbum

Mynd með færslu
Minnst fimm svokallaðir kampavínsklúbbar eru reknir í höfuðborginni. Vísbendingar eru um að vændisstarfsemi sé rekin í tengslum við þá, og jafnvel grunur um að mansal tengist þeirri starfsemi. Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vísbendingar eru um að mansal kunni að tengjast kynlífsþjónustu á svokölluðum „kampavínsklúbbum" í höfuðborginni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.

Þar segir að ýmislegt bendi til að vændisþjónusta þrífist í kringum
þessa staði, sem séu að minnsta kosti fimm talsins á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslunni segir að oft sé þar um erlendar stúlkur að ræða. Ekki sé þó vitað með vissu hvort þær séu fluttar nauðugar til landsins eða hindraðar í að ferðast um frjálsar.

Fram kemur að stúlkurnar séu jafnan ófúsar til samstarfs við lögreglu sem torveldar rannsóknir. Landamæraverðir hafa ennfremur upplýst að grunur leiki á að erlendar konur komi gagngert til landsins í því skyni að stunda vændi. Almennt telur greiningardeildin að vændisstarfsemi færist í aukana, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Talið er líklegt að eftirspurn eftir vændisþjónustu, eins og það er kallað í skýrslunni, aukist með vaxandi ferðamannastraumi til landsins. Upplýsingar hafi komið fram nýlega sem bendi til þess að erlendar vændiskonur leiti sér kynlífskaupenda á hótelum Reykjavíkur. Í einhverjum tilfellum voru starfsstúlkur svokallaðra kampavínsklúbba þar á ferð. Frá 2013 hafa 52 einstaklingar verið kærðir vegna vændiskaupa. Í öllum tilfellum nema einu var um Íslendinga að ræða. 

Ekki eru fyrir hendi upplýsingar sem benda til þess að mansal tengt kynlífsþjónustu eigi sér stað utan höfuðborgarsvæðisins.