Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grunur um kosningaspjöll í Árneshreppi

Chairman of the Independence Party Bjarni Benediktsson casts his ballot Saturday April 27, 2013, as Icelanders vote in a General Election.  According to polls the parliamentary election could return to power the center-right parties that led the country
 Mynd: AP Photo/Brynjar Gauti
Þjóðskrá Íslands hefur gert alvarlegar athugasemdir við íbúaskrá Árneshrepps og mikla fjölgun íbúa í sveitarfélaginu á síðustu vikum. Grunur hefur vaknað um möguleg kosningaspjöll. 

Vakin var athygli á þessu á bloggsíðu Kristins H. Gunnarssonar í gær en fréttin birtist einnig í Fréttablaðinu í morgun.

Íbúum í Árneshreppi fjölgaði um 40% prósent á tímabilinu 24. apríl til 4. maí. Í sveitarfélaginu voru áður skráðir 44 með lögheimili og 17 einstaklingar fluttu lögheimili sitt þangað á tímabilinu. Þjóðskrá hefur gert athugasemd við þetta og segir í minnisblaði frá lögmannsstofunni Sókn sem sveitarfélagið lét útbúa að lögheimilisflutningarnir beri það með sér að vera málamyndaskráningar vegna sveitarstjórnarkosninganna í lok maí. Þjóðskrá hefur nú ákveðið að endurupptaka afgreiðslu lögheimilisskráninga þessara einstaklinga ásamt því að tilkynna málið til innanríkisráðuneytisins. Þá hafi Sambandi íslenskra sveitarfélaga einnig verið upplýst um málið. 

Kjörskrárstofn miðast við dag þremur vikum fyrir kjördag og því er ljóst að í kjörskrárstofni fyrir Árneshrepp verða þessir einstaklingar taldir með að öllu óbreyttu. Í minnisblaðinu segir að málið sé litið alvarlegum augum enda varði það bæði röskun á grundvallarreglum um lýðræði og geti einnig varðað við lög. Í hegningarlögum er til að mynda kveðið á um allt að tveggja ára fangelsi við kosningaspjöllum.

Stærsta kosningamálið í hreppnum er fyrirhuguð bygging Hvalárvirkjunar. Meirihluti hreppsnefndar er fylgjandi virkjunaráformum. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, vildi ekki tjá sig nánar við fréttastofu í morgun. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV