
Grunur um kosningaspjöll í Árneshreppi
Vakin var athygli á þessu á bloggsíðu Kristins H. Gunnarssonar í gær en fréttin birtist einnig í Fréttablaðinu í morgun.
Íbúum í Árneshreppi fjölgaði um 40% prósent á tímabilinu 24. apríl til 4. maí. Í sveitarfélaginu voru áður skráðir 44 með lögheimili og 17 einstaklingar fluttu lögheimili sitt þangað á tímabilinu. Þjóðskrá hefur gert athugasemd við þetta og segir í minnisblaði frá lögmannsstofunni Sókn sem sveitarfélagið lét útbúa að lögheimilisflutningarnir beri það með sér að vera málamyndaskráningar vegna sveitarstjórnarkosninganna í lok maí. Þjóðskrá hefur nú ákveðið að endurupptaka afgreiðslu lögheimilisskráninga þessara einstaklinga ásamt því að tilkynna málið til innanríkisráðuneytisins. Þá hafi Sambandi íslenskra sveitarfélaga einnig verið upplýst um málið.
Kjörskrárstofn miðast við dag þremur vikum fyrir kjördag og því er ljóst að í kjörskrárstofni fyrir Árneshrepp verða þessir einstaklingar taldir með að öllu óbreyttu. Í minnisblaðinu segir að málið sé litið alvarlegum augum enda varði það bæði röskun á grundvallarreglum um lýðræði og geti einnig varðað við lög. Í hegningarlögum er til að mynda kveðið á um allt að tveggja ára fangelsi við kosningaspjöllum.
Stærsta kosningamálið í hreppnum er fyrirhuguð bygging Hvalárvirkjunar. Meirihluti hreppsnefndar er fylgjandi virkjunaráformum. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, vildi ekki tjá sig nánar við fréttastofu í morgun.