Bólusetning við ebólu. Mynd úr safni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Grunur er um að manneskja í Svíþjóð sé smituð af sjúkdómnum ebólu, að því er sænska ríkisútvarpið, SVT, greinir frá. Heilbrigðisyfirvöld tilkynntu opinberlega um málið í dag.
Ekki hafa verið gefnar neinar upplýsingar um sjúklinginn nema þær að hann hafi leitað á sjúkrahús í Enköping. Þaðan var hann fluttur á háskólasjúkrahúsið í Uppsölum. Í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu segir að niðurstöður rannsókna liggi líklega fyrir í kvöld. Á þessu stigi sé aðeins grunur um ebólu en vel geti verið að sjúklingurinn sé með annan sjúkdóm.
Ebóla getur verið lífshættulegur sjúkdómur. Á vísindavefnum segir að ebóluveiran dragi nafn sitt af ánni Ebólu í Kongó. Þar og í Súdan kom veiran fyrst fram á sjónarsviðið árið 1976. Þar segir einnig að sjúkdómurinn hafi nánast alfarið verið bundinn við Afríku. Talið er að hann berist frá dýrum í menn og að ávaxtaleðurblökur séu líklega forðahýsill veirunnar.