Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Grunnstoðir Árneshrepps á ystu nöf

28.07.2017 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Óvíst er hvort skólastarf verði áfram í Árneshreppi í vetur. Eitt barn er skráð í Finnbogastaðaskóla, grunnskóla hreppsin. Þrjú til viðbótar eiga þar lögheimili en óljóst hvort þau búi þar í vetur. Ekki er búið að ráða skólastjóra til starfa fyrir veturinn. Sömuleiðis er verslun í Árneshreppi erfið og óljóst hvort útibú kaupfélagsins standi undir rekstri, vegna fólksfækkunar. Þannig eru tvær grunnstoðir sveitarfélagsins komnar á ystu nöf, segir Ingólfur Benediktsson, varaoddviti Árneshrepps.

Undanfarin ár hafa um fimm börn verið í skólanum og fengið kennslu í blönduðum bekk eða samkennslu. Þrír starfsmenn hafa verið við skólann. Ef svo fer að aðeins eitt barn á skólaaldri verði skráð í skólann er framhaldið í raun í höndum foreldra. „Það er ekkert augljóst ráð við því,“ segir Ingólfur. 

Kreppir ekki síður að verslun

Ein helsta lífæð sveitarfélagsins sé þannig í hættu. „Það er ekki orðið mikið eftir ef ekki er skóli,“ segir hann. Lítið sé verið að gera til að halda heilsársbyggð í hreppnum. Árneshreppur sótti um að láta skilgreina sveitarfélagið sem brothætta byggð hjá Byggðastofnun fyrir tveimur árum en fékk það ekki í gegn. „Ég veit ekki hvað hefur breyst síðan,“ segir Ingólfur.

Þá kreppi ekki síður að verslun. Kaupfélagið á Hólmavík hefur rekið útibú í sveitarfélaginu síðan snemma á tíunda áratugnum en núna sé óljóst hvort svo verði áfram. Rekstur hefur verið erfiður undanfarin ár vegna fólksfækkunar í sveitarfélaginu, segir Ingólfur, sem hefur setið fundi með kaupfélaginu. „Þetta er ekki góð staða.“ Verslun sé hverju sveitarfélagi mikilvæg, ekki síst sveitarfélagi sem ekki eigi möguleika á að sækja sér þjónustu annað yfir veturinn. Um hundrað kílómetrar eru til Hólmavíkur frá Árneshreppi og samgöngur stopular á veturna.