Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grunnskólabörn lásu 54 þúsund bækur

14.03.2016 - 15:07
Crop úr plakati fyrir lestrarátak Ævars vísindamanns 2016
 Mynd: Ævar Þór Benediktsson
54 þúsund bækur voru lesnar í lestrarátaki Ævars vísindamanns, sem stóð frá 1. janúar til 1. mars, samkvæmt talningu á innsendum lestrarmiðum.

Þetta kom fram þegar dregið var úr lestrarátakspottinum nú á mánudagsmorgun. Nemendur úr Grunnskólanum í Sandgerði, Laugarnesskóla, Hörðuvallaskóla, Árskóla Sauðárkróki og Hríseyjarskóla voru dregin úr pottinum og þau verða gerð að persónum í bók eftir Ævar sem kemur út í apríl.

Allir krakkar í 1.-7. bekk máttu taka þátt í lestrarátakinu og stærsti hluti grunnskóla landsins sendi inn lestrarmiða, auk Gladsaxeskóli í Danmörku, þar sem íslenskir krakkar stunda nám.

Í fyrra voru rúmlega 60 þúsund bækur lesnar á fjórum mánuðum í sama átaki, sem þýðir að tæpar 115 þúsund bækur hafa nú verið lesnar í lestrarátökum Ævars.

 

oddurfreyr's picture
Oddur Freyr Þorsteinsson
vefritstjórn