Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grótta Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Gróttukonur fagna sem deildarmeistarar í gærkvöld.
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV

Grótta Íslandsmeistari í fyrsta sinn

12.05.2015 - 20:18
Grótta varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni 24-23 í Mýrinni í Garðabæ í fjórða leik liðanna í úrslitunum. Grótta vann þar með einvígið 3-1 og landaði þar með fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins í hópíþrótt frá upphafi.

Stjörnukonur náðu fljótt forystunni í leiknum og komust mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik en leiddu með þremur mörkum að honum loknum 13-10.

Stjarnan náði aftur fimm marka forystu í upphafi síðari hálfleiksins en Grótta át smátt og smátt upp forskot heimakvenna og jafnaði 23-23 þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Lokamínúturnar voru æsispennandi og fór svo að hin 15 ára Lovísa Thompson skoraði fyrir Gróttu þremur sekúndum fyrir leikslok og tryggði liðinu sigur 24-23 og þar með Íslandsmeistaratitilinn.

Lovísa skoraði fjögur mörk fyrir Gróttu í kvöld líkt og Eva Björk Davídsdóttir en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir gerði sjö mörk. Sólveig Lára Kjærnested var markahæst Stjörnukvenna með sjö mörk en Esther Viktoría Ragnarsdóttir var með fimm mörk.

Grótta er þar með þrefaldur meistari en varð einnig deildar- og bikarmeistari.