Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gróðrastöð Barra bjargað fyrir horn

24.11.2014 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Gróðrastöðinni Barra á Fljótsdalshéraði hefur verið bjargað frá rekstrarstöðvun og áætlun lögð fram um rekstur næstu tveggja ára í þeirri trú að aðstæður að skógarplötumarkaði muni lagast.

Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Barra, segir að tekist hafi að safna rúmlega 10 milljónum króna í aukið hlutafé. Stjórn stefndi reyndar að því að ná 13 milljónum en samið var um að loforð fyrir auknu hlutafé yrðu bindandi ef næðist að safna 10 milljónum og tókst það í lok síðustu viku.

Fljótsdalshérað ver starfsemina

Stærsta einstaka framlagið kemur úr atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs eða 3,6 milljónir. Það er í hlutfalli við eign sjóðsins í Barra en eins og staðan er núna á sjóðurinn um 31,2%. Fljótsdalshreppur á rúm 5,3%, skógarbændur samtals  37,4%  og starfmenn eiga rúm 22%. Aðrir ótengdir aðilar eiga tæp 4%.

Hefði haft slæm áhrif á skógræktargeirann

Skúli Björnsson fagnar því að tekist hafi að bjarga fyrirtækinu. „Það léttir á manni að geta haldið áfram og einbeitt sér að því að reka þetta áfram í staðinn fyrir að það stefndi í stopp. Það hefði haft veruleg áhrif á skógargeirann í heild sinni ef fullkomnasta skógarplöntustöð landsins hefði hætt rekstri,“ segir Skúli.

Þreyja þorrann og bíða eftir betri tíð

Hjá Barra verða unnin um 4 árverk og starfsmenn verða mest 6 talsins.  „Tilgangurinn er að halda félaginu í rekstri í að minnsta kosti tvö ár í þeirri trú að markaðurinn fari að batna eða stækka aftur. Eins og reyndar stjórnvöld hafa gefið yfirlýsingar um,“ segir Skúli.

Aðeins annað gróðurhúsið í notkun

Í Barra eru tvö rúmlega 2 þúsund fermetra gróðurhús og er annað nýtt undir trjáplöntuframleiðslu en hitt stendur tómt. Tilraunaverkefni um vefjaræktun á berjaplöntum olli vondbrigðum því einkalaeyfisgjöld reyndust of há fyrir framleiðslu á plöntum fyrir íslenskan markað sem getur ekki staðið undir slíkum gjöldum en greiða þarf hátt stofngjald óháð framleiðslumagni en þar að auki árgjald og gjald á hverja selda einingu. Skúli segir að nú séu áhugaverðar hugmyndir uppi um hvernig nýta megi gróðurhúsið. Ákveðið nýsköpnarverkefni sé í skoðun en ekki komið á framkvæmdastig og því ekki rétt að taka það inn í rekstraáætlanir.