Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Grjónagrautsís í Flóanum

08.04.2012 - 20:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Kúabændur í Flóanum hafa breytt gömlu mjólkurhúsi við fjósið hjá sér í ísvinnslu þar sem framleiddar eru þrjár tegundir af ís úr mjólkinni úr kúnum. Grjónagautsísinn hefur vakið mesta athygli.

Á bænum Læk í Flóahreppi eru þau Gauti Gunnarsson og Guðbjörg Jónsdóttir með kúabú þar sem kýrnar eru um 45 og framleiðslurétturinn um 220 þúsund mjólkurlítrar. Í maí á síðasta ári stofnuðu þau bændaverslunina Búbót í gömlu Þingborg við Suðurlandsveginn þar sem þau eru með vörur beint frá bónda. Til að auka vöruúrvalið í Búbót hafa þau breytt gamla mjólkurhúsinu á Læk í ísvinnslu þar sem fjölskyldan hjálpast við að útbúa ísinn og pakka honum.

Gauti Gunnarsson, ísbóndi, segir að þetta sé mjólkurís og mjólkin komi úr kúnum á Læk. Notað sé einnig hráefni úr nágrenninu eins og hunang frá Álfsstöðum og Bismark-brjóstsykur frá Svandísi og gamli góði grjónagrauturinn sem allir þekki. Grjónagrautsísinn veki þó mesta athygli.

Sérstakar öskjur voru útbúnar undir ísinn, sem eru eins og kökusneið í laginu. Gauti segir að þegar farið hafi verið af stað með búðina hafi þau komist í samband við tvo vöruhönnuði og þeir hafi hjálpað til við að útbúa þessar öskjur. Mynstrið sé byggt á gamla leirtauinu frá Royal Copenhagen. Gauti segir það svalt að vera ísbóndi.