Gríska undrið valið verðmætast í NBA

NBA player Giannis Antetokounmpo, of the Milwaukee Bucks, poses in the press room with most valuable player award at the NBA Awards on Monday, June 24, 2019, at the Barker Hangar in Santa Monica, Calif. (Photo by Richard Shotwell/Invision/AP)
 Mynd: AP

Gríska undrið valið verðmætast í NBA

25.06.2019 - 04:52
Grikkinn Giannis Antetokounmpo var valinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í körfubolta í nótt. Antetokounmpo leiddi lið Milwaukee Bucks í vetur sem náði besta árangri allra liða í deildinni, en tókst þó ekki að leika til úrslita um titilinn.

Antetokounmpo er jafnan kallaður gríska undrið. Hann er fæddur í Grikklandi árið 1994, sonur nígerískra innflytjenda. Hann ólst upp í Aþenu, og hóf að æfa körfubolta árið 2007. Árið 2009 lék hann með ungmennaliði Filathlitikos, og tveimur árum síðar, þá 17 ára gamall, var hann orðinn leikmaður aðalliðs Filathlitikos. Þar lék hann í tvö tímabil áður en hann gekk til liðs við spænska félagið CAI Zaragoza. Þar gerði hann fjögurra ára samning og átti að hefja leik með félaginu haustið 2013. Hann bauð sig hins vegar fram í nýliðaval NBA deildarinnar vorið 2013, og var valinn í fyrstu umferð af Milwaukee Bucks. Smám saman hefur hlutverk hans í liðinu vaxið og var tímabilið í ár hans besta hingað til. Hann skoraði tæp 28 stig að meðaltali í leik, tók 12,5 fráköst og gaf nærri sex stoðsendingar. Þá komst Milwaukee í undanúrslit NBA deildarinnar, þar sem liðið laut í lægra haldi gegn Toronto Raptors sem endaði á því að hampa meistaratitlinum.

Næstir á eftir Grikkjanum komu þeir Paul George úr Oklahoma City Thunder og James Harden, leikmaður Houston Rockets. Þjálfari Milwaukee, Mike Budenholzer, hlaut einnig verðlaun sem besti þjálfari deildarinnar. 
Antetokounmpo var einnig tilnefndur sem besti varnarmaður deildarinnar en varð að játa sig sigraðan fyrir Rudy Gobert, leikmanni Utah Jazz. Slóveninn Luka Doncic, leikmaður Dallas Mavericks, var útnefndur besti nýliðinn, Pascal Siakam úr meistaraliði Toronto Raptors þótti hafa hafa tekið mestu framförum á milli tímabila, og Lou Williams leikmaður L.A. Clippers var valinn besti sjötti maður deildarinnar.

Að auki hlutu goðsagnirnar Larry Bird og Magic Johnson sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til körfuboltans í gegnum tíðina.