Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Grindavík tryggði sér oddaleik um titilinn

Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski / RÚV

Grindavík tryggði sér oddaleik um titilinn

27.04.2017 - 21:42
Grindvíkingar tryggðu sér oddaleik gegn KR í úrslitaeinvígi úrvalsdeildar karla í körfubolta. KR var 2-1 yfir í einvíginu fyrir leikinn í Grindavík í kvöld og gat því með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð.

Eftir fyrsta leikhluta voru heimamenn yfir 20-15. KR ingar náðu ekki að sýna bestu hliðar sínar í öðrum leikhluta og í hálfleik var Grindavík 9 stigum yfir 42-33.

KR ingar mættu grimmari til seinni hálfleiks og um miðjan þriðja leikhluta jafnaði Jón Arnór Stefánsson leikinn í 50-50 en hann skoraði 14 stig í leiknum.

Grindavík var þó fjórum stigum yfir fyrir lokaleikhlutann sem stefndi í að yrði æsispennandi. Grindvíkingar náðu þó frumkvæðinu á ný og Lewis Clinch sem skoraði 21 stig í leiknum náði 12 stiga forystu fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu þegar þrjár og hálf mínúta var eftir.

Grindvíkingar náðu svo 17 stiga forystu og gerðu út um leikinn en lokatölur urðu 79-66 fyrir Grindavík sem tryggði sér þannig oddaleik á sunnudaginn.

Rætt er við Jóhann Þór Ólafsson þjálfara Grindavíkur og Finn Frey Stefánsson þjálfara KR í myndskeiðinu við þessa frétt.