Grímsstaðir til sölu á EES-svæðinu

30.12.2014 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúi eigenda af stærstum hluta lands á Grímsstöðum á Fjöllum segir landareignina enn til sölu. Seinagangur ríkis og sveitarfélaga í samskiptum við Huang Nubo hafi valdið eigendunum miklum vonbrigðum.

Það eru 72 prósent af Grímsstaðalandinu sem eru til sölu. Það var sá hluti sem kínverski auðmaðurinn Huang Nubo vildi kaupa og síðar félag sex sveitarfélaga á Austur- og Norðurlandi. Fjórir eigendur eru af þeim hluta landsins.

Jóhannes Haukur Hauksson, einn þeirra, segir að eins og málin hafi þróast hafi ekki komið á óvart þegar sveitarfélögin slitu að lokum viðræðum við Huang Nubo. Lengi hafi verið reiknað með að svo færi. „Þetta þýðir náttúrulega ekkert annað en það að þessi möguleiki er úr sögunni og við munum bara halda áfram að selja okkar eign.“

Hann segir íslenska fasteignasölu vera með landið til sölu og hún sé í sambandi við fasteignasölur í Þýskalandi, Hollandi og Skandinavíu. „Það er mikill áhugi en það er ekkert í hendi. Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir frá Þýskalandi, en ekkert sem hefur leitt til neins áþreifanlegs."

Og seinagangur bæði hjá ríkinu og síðar hjá sveitarfélögunum hafi valdið eigendum Grímsstaðalandsins miklum vonbrigðum. En þar sem landið sé nú eingöngu auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu ætti salan að þessu sinni vera einfaldari. „Samkvæmt lögunum þá mega íbúar á Evrópska efnahagssvæðinu kaupa landssvæði hér.“ 

Og Jóhannes viðurkennir hér á landi sé pólitísk andstaða gegn sölu á þessu hluta Grímsstaðalandsins, en svo hafi aðrir verið því meðmæltir. „Þannig að það er nú kannski bara eins og með öll mál.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi