Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Grímseyjarferðir mögulegar með nýjum bát

15.12.2015 - 15:50
Mynd:  / 
„Fyrst og fremst viljum við auka afkastagetu okkur hérna í hvalaskoðuninni í Eyjafirðinum,“ segir framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Ambassador á Akureyri, Magnús Guðjónsson. Til greina kemur að sigla með ferðamenn til Grímseyjar, í kjölfar kaupa fyrirtækisins á öflugum báti sem getur tekið um 150 farþega.

Báturinn getur siglt á allt að 27 hnúta hraða, en hann er tvíbytna. Það er 29 metra langt, 8 metra breitt og 225 brúttótonn. Báturinn er 25 ára gamall og hefur verið notaður til farþegaflutninga í Noregi í áraraðir.

Magnús segir að báturinn sé því ansi öflugur og hraðskreiður, þó það sé í sjálfu sér ekki ástæðan fyrir því að þessi bátur varð fyrir valinu. Hann hentar vel á hafsvæði eins og því sem er í Eyjafirði, en þar hefur fyrirtækið skoðað hvali. Fullyrðir Magnús, að hvalir hafi sést í hverri einustu ferð í sumar.

Það sem þessi bátur býður upp á, er að hægt verður að sigla til Grímseyjar með farþega. Báturinn er um tvo tíma að sigla þangað óslitið frá Akureyri, en um fjóra tíma tekur að keyra til Dalvíkur og taka þaðan ferjuna Sæfara til Grímseyjar. Magnús segir að fyrirtækið hyggist bjóða upp á pakkaferðir fyrir ferðafólk, þar sem hvalir og lundar verði skoðaðir, bragðað verði á mat sem tengist Grímsey og farið verði norður fyrir heimskautssbaug. Allt þetta sé hægt að gera á um sex klukkustundum. Einnig muni Grímseyingar geta nýtt sér ferðir bátsins, til að komast til Akureyrar eða aftur heim. 

Hægt er að sjá viðtalið við Magnús og myndir af bátnum í spilaranum hér að ofan.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV