Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Grímseyingar vilja fleiri ferjuferðir

27.12.2014 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Grímseyingar vilja fjölga ferjusiglingum til og frá eynni næsta sumar. Það myndi efla ferðaþjónustu í Grímsey og bæta vöruflutninga.

Bæjarstjóranum á Akureyri var á dögunum afhentur undirskriftarlisti með nöfnum 40 íbúa í Grímsey. Þeir óska þess að siglingum Grímseyjarferjunnar Sæfara verði fjölgað í fimm ferðir á viku í fjóra mánuði; maí, júní, júlí og ágúst. Í dag siglir ferjan þrisvar í viku. Þarna séu miklir hagsmunir í húfi sérstaklega með tilliti til fiskveiða og ferðaþjónustu.

„Það er upp á að fiskurinn komist ferskari í land. Það er mikið af litlum bátum sem róa hérna yfir sumarið og það munar að selja fiskinn á hverjum degi í staðinn fyrir annan hvern dag. Og svo er það líka bara vegna túristanna. Þá verða fleiri ferðir hingað, sem þýðir náttúrulega fleiri túristar og þá geta þeir stoppað og gist kannski eina nótt í staðinn fyrir tvær", segir Anna María Sigvaldadóttir, íbúi og kaupmaður í Grímsey.

Þá hafi það miklar breytingar í för með sér með tilliti til vöruflutninga til Grímseyjar og verslunin gæti til dæmis fengið ferskvöru oftar en nú er. Einnig sé talsvert ódýrara að ferðast með ferjunni en með flugi.

„Það munar sjálfsagt, myndi ég halda, hátt í helming þótt það sé orðið dálítið dýrt að fara með ferjunni á milli. Þá er það innan við 10.000 fram og til baka fyrir fullorðinn, helmingur af því fyrir eldri borgara og unglinga. En lengri ferðamáti, ég viðurkenni það alveg", segir Anna María.