Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grimmilegt og heimskulegt

Mynd: Óðinn Jónsson / RÚV
Kári Stefánsson, læknir og erfðafræðingur, gagnrýnir harðlega flutningsmenn frumvarps um að heimila sölu áfengis í matvörubúðum. Hann segir hugmyndir þeirra grimmilegar og heimskulegar og auki enn á áfengisvandann í landinu.

Kári Stefánsson ræddi erfðir fíknar í Morgunútgáfunni ásamt Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni SÁÁ. Kári segist ekki sjá fræðilega hindrun fyrir því að finna megi lyf sem hjálpað gæti þeim sem haldnir eru áfengissýki. Áfram verði einstaklingurinn þó að ná tökum á sínu lífi. Lyf geti aldrei leyst vandann. Kári lauk miklu lofsorði á árangur SÁÁ og meðferðarinnar á Vogi. Þórarinn sagði mjög gagnlegt að kortleggja betur erfðir fíknarsjúkdóma til að bregðast mætti fyrr og betur við afleiðingunum.

Kári lýsti afdráttarlausri andstöðu við frumvarp til laga um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. „Ég skil ekki hvar við fundum þetta fólk sem situr á Alþingi, sem sér ástæðu til að gera svona lagað. Með því að setja áfengi í matvörubúðir ertu að egna fyrir fólki sem fer þangað að kaupa sér mat.“ Hann benti á tengsl milli fíknar í mat og áfengi. „Og þegar alkóhólistinn fer inn í búð að kaupa mat er ekki ólíklegt að hann gangi út með áfengi, sé það til staðar. Mér finnst þetta grimmilegt, heimskulegt, og ég skil ekki fólk sem gerir svona lagað,“ segir Kári Stefánsson um flutningsmenn frumvarpsmenn á Alþingi.

Þórarinn Tyrfingsson minnti í þessu sambandi á fjölgun aldraðra og ef áfengið væri að finna í matvöruverslunum myndi áfengisvandi meðal þeirra vaxa enn. 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður