„Grimmdin var ólýsanleg“

24.08.2018 - 10:29
Mynd: EPA-EFE / EPA
Ári eftir að hafa flúið heimkynni sín í Mjanmar hafast hátt í milljón Róhingjar við í flóttamannabúðum í nágrannaríkinu Bangladess. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir heila kynslóð Róhingja í hættu.

Það er nú rétt um eitt ár síðan blóðug átök brutust út í Mjanmar. Í kjölfarið voru sagðar ófáar fréttir af Róhingjum, einni fjölmennustu þjóð án ríkisfangs í heiminum. 

Á annað hundrað þúsund múslimar úr hópi Róhingja hafa flúið undan ofsóknum í Mjanmar undanfarna daga. Herinn þar í landi er sakaður um fjöldamorð og gróf mannréttindabrot. 

Hundruð þúsunda flýðu yfir til nágrannaríkisins Bangladess. Nú, ári síðar, hafast enn um 900 þúsund þar við. Langflest þeirra búa í flóttamannabúðum og meira en helmingur flóttafólksins eru börn. Samkvæmt nýrri skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, er framtíð þessara barna afar óljós.

Þótt hjálparsamtök reyni að koma börnunum til bjargar fá þau ekki öll tækifæri á menntun. Sumum þeirra er ætlað annað hlutverk. Til dæmis hinni fimmtán ára Sonjidu sem gekk í hjónaband skömmu eftir að í flóttamannabúðirnar var komið í fyrra, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Eiginmaður Sonjidu er 73 ára. Þau eiga nú von á sínu fyrsta barni. 

Meirihluti Róhingja eru múslimar en nú stendur yfir eid al-adha, ein stærsta hátíð múslima. Hún er haldin hátíðleg í flóttamannabúðunum í Bangladess. Þó svo að stjórnvöldum í Mjanmar verði seint hrósað fyrir að taka Róhingjum opnum örmum er óskin um heimkomu fyrirferðarmikil í bænum margra Róhingja. 

Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður, dvaldi í flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess í desember í fyrra. Hann segir að þó búðirnar séu vel heppnaðar séu þær fyrst og fremst ætlaðar til skammtímadvalar. 

„Búðirnar voru furðu góðar, skipulagðar og margt hreinlega til fyrirmyndar. En ástand fólksins var skelfilegt, grimmdin sem þeim var sýnd var ólýsanleg,“ segir Ingólfur Bjarni.

Mannvonskan er þannig að maður skilur hreinlega ekki hvernig ein mannvera getur gert annarri eitthvað slíkt. Þjóðarmorð, nauðgun sem vopn, saklaust fólk, jafnvel börn, sem kastað er lifandi á eld eða þau brennd inni.

„Og friðarverðlaunahafinn Aung San Suu Kyu hafnar því með öllu að herinn beri ábyrgð á þjóðarmorði. Þess vegna á ég erfitt með að sjá fyrir mér hvernig Róhingjar geta snúið aftur heim, nema til komi nokkuð umfangsmikil, alþjóðleg vernd, vopnaðar sveitir, til að gæta þeirra,“ esgir Ingólfur Bjarni.

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi