Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grillað flatbrauð

03.12.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Að henda í flatbrauð og grilla svo í ofninum er dásamlega fljótlegt og það er svo ljúffengt að ég fæ vatn í munninn við að hugsa um það, nýgrillað með ólífuolíu og Himalayasalti. Solla Eiríks (Gló) kenndi mér að búa til svona brauð.

Grillað flatbrauð

3 dl kamút, spelt eða hveiti (ég nota gróft)
1 tsk. sjávar- eða Himalayasalt
2 msk. kaldpressuð ólífuolía
1- 1½ dl volgt (soðið) vatn

Blandið fyrst þurrefnum saman í skál og bætið svo ólífuolíunni og vatninu saman við. Hrærið fyrst saman með skeið og svo höndum (þetta er svipað deig og pítsubotnarnir).
Búið til lengju og skerið um 10-15 bita. Fletjið hvern og einn út með lófanum – raðið á bökunarpappír á bökunarplötu (þetta passar á eina bökunarplötu) og grillið í um 3-4 mínútur á annarri hliðinni eða þangað til brauðin byrja að bólgna aðeins út og eru þurr á að líta.
Snúið þá brauðunum við og bakið hinum megin í um 1-3 mínútur. Bökunartíminn getur verið misjafn eftir mjöli og ofnum. Þegar þau koma út raðið þið þeim á disk og berið fram með ólífuolíu og sjávar- eða himalayasalti eða öðru sem þið kjósið.

*Svo getið þið alltaf bætt við því sem þið viljið í ykkar brauð .. hvítlauk, rósmarín osfrv.

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir