Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Grikkland: Stjórnarflokkum refsað

07.05.2012 - 05:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Búist er við því að Antonis Samaras, leiðtoga Nýja lýðræðisflokksins, verði falið að reyna stjórnarmyndun í Grikklandi í dag, en það gæti orðið þrautin þyngri eftir að stjórnarflokkarnir guldu afhroð í þingkosningunum í gær.

Þegar nær öll atkvæði voru talin var ljóst að burðarásar fráfarandi stjórnar, Nýi lýðræðisflokkurinn, og jafnaðarmannaflokkurinn PASOK, höfðu fengið samtals rétt um þriðjung atkvæða, og 150 sæti af 300 á þjóðþinginu í Aþenu. Þessir tveir flokkar fengu samtals 77,4 prósent atkvæða í þingkosningunum 2009.

Þannig fékk PASOK 44 prósent atkvæða fyrir þremur árum, en aðeins 13,4 prósent í gær. Evangelos Venizelos, leiðtogi flokksins, segir ljóst að þeir sem fallist hafi á mikinn niðurskurð, þrengingar og aðhald, til að bjarga Grikkjum frá þjóðargjaldþroti, hafi goldið þessara óvinsælu ráðstafana í gær.

PASOK verður þriðji stærsti þingflokkurinn, á eftir vinstrabandalaginu Syriza sem fékk 16,6 prósent í gær. Alexis Tsipras, leiðtogi þess, vill fá að mynda vinstristjórn í Grikklandi. Meðal smærri flokka sem fengu menn kjörna í gær er Gullna dögunin, samtök nýnasista, en liðsmenn þeirra segja útlendinga höfuðpaura í öllu því sem miður fer í Grikklandi, og ofsækja innflytjendur á götum úti. Gullna dögunin fékk 6,9 prósent í gær, og um 20 þingmenn.

Fréttaskýrendur óttast glundroða í Grikklandi. Í næsta mánuði séu á dagskrá nýjar niðurskurðartillögur, upp á 11 milljarða evra fyrir næsta og þarnæsta ár. Verði þær ekki samþykktar geti komið til þess að Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafni því að veita Grikkjum frekari lán og fyrirgreiðslu. Þá myndi greiðslufall blasa við þeim, og Efnahags-og myntbandalag Evrópu, evruríkin, verða að glíma við alvarlegustu kreppu frá stofnun bandalagsins.

Mikið verðfall varð á hlutabréfamörkuðum í Grikklandi í morgun og féllu þau um hátt í 8% þegar markaðir opnuðu í morgun.