Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gríðarleg fjölgun öryrkja á fyrri helmingi árs

27.08.2016 - 19:47
Mynd: RÚV / RÚV
Öryrkjum með 75 prósenta örorku hefur fjölgað um tæplega eittþúsund á fyrstu sex mánuðum ársins. Endurhæfingarlæknir segir að auka þurfi samhæfingu heilbrigðisþjónustunnar og félagslega kerfisins.

Fjölgunin kemur fram í gögnum sem Tryggingastofnun vann fyrir Samtök atvinnulífsins. Gögnin sýna svo ekki verður um villst að ekki hefur tekist að stemma stigu við fjölgun öryrkja á undanförnum árum, en skráðir öryrkjar í landinu eru nú 18.200. 

Fjölþættur vandi öryrkja

„Það segir okkur bara það að stjórnvöld hafa ekki forgangsrað fjármunum rétt. Það þarf að byggja upp innviði kerfisins. Það þarf að byggja upp þetta félagaslega, og heilbrigðiskerfið og menntakerfið, þannig að allir fái tækifæri við hæfi,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Hún bendir á að vandi öryrkja sé fjölþættur. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu séu langir og félagslega kerfið veiti ekki nægjanlegan stuðning. Eftir tölunum að dæma verður metfjölgun í hópi öryrkja á þessu ári.

Endurhæfingarferlið ekki að virka

Ýmsar ástæður geta verið fyrir þessari miklu fjölgun. Aldurshópurinn milli fimmtugs og sextugs er að stækka í samfélaginu. Þá getur aukin streita í samfélaginu skipt máli, og sú staðreynd að Tryggingastofnun afgreiðir örorkumat hraðar en áður. Svo gæti ein skýringin verið sú að endurhæfingin virki ekki sem skyldi.

„Ég held að svarið hljóti að vera já. Ef að kerfið okkar væri til fyrirmyndar værum við ekki að sjá þetta. Ég held að við þurfum að horfa í eigin barm og skoða hvað við verum að gera í dag og hvar sé pottur brotin. Annars vegar innan heilbrigðiskerfisins og hinsvegar hjá samfélaginu,“ segir Arnór Víkingsson, gigtar- og endurhæfingarlæknir.

Þarf að samhæfa endurhæfinguna

70% öryrkja á Íslandi glíma við geðræna kvilla eða stoðkerfisvandamál, en það fer oft saman hjá sömu manneskju. Arnór segir að félagsleg endurhæfing og læknisfræðileg þurfi að haldast betur í hendur. 

„Samhæfing kerfisins er ekki næstum því nógu góð varðandi endurhæfingu þessara aðila. Við erum með fjölmargar stofnanir sem eru að finna frábært verk, margar hverjar, á sína vísu. En það þarf að samhæfa endurhæfingu hvers einstaklings,“ segir Arnór. „Hann getur þurft kannski eins til tveggja ára endurhæfingu, og hún þarf að vera dálítið samfelld en ekki brotin upp í nokkra mánuði hér og nokkra mánuði þar með hléum á milli.“

Stoðkerfið og geðheilsan gefur sig undir álagi

Formaður Öryrkjabandalagsins tekur undir það og segir að stjórnvöld þurfi að samræma endurhæfingarferlið betur, með tilliti til heilsufars og félagslegra aðstæðna. Þegar fólk er undir miklu álagi eru áhrifin bæði andleg og líkamleg. „Þá er það tvennt sem gefur sig. Það er stoðkerfið, eða geðið,“ segir Ellen Calmon.

Forstjóri Tryggingastofnunar gat ekki veitt fréttastofu viðtal í dag en segir að vænta megi skýringa frá stofnuninni á næstu dögum.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður