Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Greinir á um birtingu stefnu

27.10.2015 - 13:19
Mynd með færslu
Theresa Jester er stjórnarformaður Silicor Materials. Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Talsmaður Silicor Materials segir að forstjóra félagsins hafi ekki verið birt stefna, eins og fréttastofa RÚV hafði eftir Páli Rúnari Mikael Kristjánssyni lögmanni í gær. Páll er lögmaður Kjósarhrepps, umhverfissamtaka og fleiri sem hafa stefnt Silicor Materials.

Alls standa um 50 aðilar að stefnunni og krefjast þeir þess að fyrirhuguð kísilverksmiðja á Grundartanga sæti umhverfismati. 

Páll sagði í samtali við fréttastofu í dag að hvað bandaríska félagið varðar hefði verið nauðsynlegt að setja stefnuna í birtingaferli í Bandaríkjunum þar sem höfuðstöðvar Silicors Materials eru. Þeirri birtingu væri lokið eða þá við það að ljúka. Þá hafi stefnan jafnframt verið birt fyrir tveimur eignarhaldsfélögum, Silicor Materials ehf. og Silicor Materials Holding ehf., á heimilisfangi þeirra að Suðurlandsbraut 18 í Reykjavík. Páll segir að með þessu sé málið nú formlega höfðað og verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember. Með málaferlunum freistast stefnendurnir til þess að fá hnekkt þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar um kísilverksmiðjan þurfi ekki að fara í umhverfismat.

Í tölvupósti frá upplýsingafulltrúa Silicors Materials kemur fram að fyrirtækið hafi fylgt leiðbeiningum stjórnvalda. Undirbúningur verkefnisins sé langt á veg kominn. Þá segir í póstinum að nær engin mengun verði frá verksmiðjunni. Einnig segir í póstinum að áður en Skipulagsstofnun gaf út ákvörðun sína um að ekki væri þörf á umhverfismati, hefði verið veittur kærufrestur en engar kærust hefðu borist áður en fresturinn rann út.