Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greining sjálfstætt starfandi ekki fullgild

Greining sérfræðilækna á einhverfu, sem leiðir til fötlunar, er ekki tekin fyllilega gild hjá Tryggingastofnun ef þeir eru í einkarekstri. Opinber stofnun þarf að staðfesta greininguna ef á að fá langtímamat. Barnageðlæknar á einkareknu meðferðarstöðinni Sól hafa komið því fram að foreldrar barna með greiningu hjá þeim geta fengið tímabundnar umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun.

Börn geta ekki beðið

Sálfræði- og læknisþjónustan Sól í Kópavogi opnaði fyrir tveimur árum og þar starfa 19 manns, nærri því allir sálfræðingar og læknar. Reynt er að hafa biðina stutta. 

„Börn geta ekki beðið. Það er ekki í boði að börn bíði eftir greiningum eða þjónustu að okkar mati,“ segir Ágústa Ingibjörg Arnardóttir sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ágústa Ingibjörg Arnardóttir sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði.

Erum ekki sjúklingar heldur með mismunandi heila

Margoft hefur verið sagt frá langri bið hjá opinberum stofnununum eins og hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og hjá BUGL. Starfsfólk Sólar hefur flest unnið hjá þessum stofnunum. Greiða þarf úr eigin vasa fyrir sálfræðiþjónustu en Sjúkratryggingar greiða læknisþjónustuna. 

„Stundum viljum við segja hér: Það eru engir sjúklingar hérna. Við erum bara með mismunandi heila. Og við erum bara í raun og veru að skoða, hvernig virkar heilinn þinn? Þú veist, í hverju ertu góður og í hverju ertu ekki góður?“ segir Helga Arnfríður Haraldsdóttir sálfræðingur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Helga Arnfríður Haraldsdóttir sálfræðingur.

Ekki siðferðislega rétt að greina barn aftur

Fyrir einu og hálfu ári hafnaði Tryggingastofnun umsókn um umönnunargreiðslur sem byggðar voru á læknisvottorðum frá sérfræðilæknum Sólar því að þau voru ekki talin nægileg staðfesting á fötlun. Við þetta var ekki unað og endaði máli í velferðarráðuneytinu sem rétt fyrir síðustu jól beindi þeim tilmælum til Tryggingastofnunar að greiddar yrðu tímabundnar umönnunargreiðslur þar til endanleg greining og staðfesting opinberrar stofnunar lægi fyrir. 

„Þar er gerð krafa um það að greiningarnar okkar séu stimplaðar eða viðurkenndar staðfestar af opinberum aðila. Áður en það fæst að þá er barnið ekki með langvarandi mat á umönnunarþörf og þá umönnunargreiðslur, ef við á, heldur einungis tímabundið. Þannig að þetta bitnar mjög á fjölskyldum,“ segir Steingerður Sigurbjörnsdóttir barnalæknir og barna- og unglingageðlæknir.

Er það ekki tvítekning?

„Okkur finnst það. Við erum þeirrar skoðunar að þetta sé ekki siðferðislega rétt fyrir fjölskylduna og barnið. Það er ekki hægt að prófa barn með stuttu millibili en einnig erum við faglega fullkomlega fær um að gera þessar greiningar og höfum tilskilin leyfi til þess.“ 

Fréttastofan hefur talað við föður 15 ára stúlku, sem eftir átta ára þrautagöngu og sjálfsvígstilraun í fyrra, var greind með einhverfu hjá Sól, þeim til mikils léttis. Hann furðar sig á að nú þurfi að fá staðfestingu á greiningunni hjá Greiningarstöð. 

„Þetta náttúrulega bætir bara í biðlistana þar og hingað til hefur Greiningarstöðin heldur ekki verið tilbúin til að staðfesta blint greiningar annarra sem er heldur ekki rétt á nokkurn hátt,“ segir Steingerður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Steingerður Sigubjörnsdóttir barnalæknir og barna- og unglingageðlæknir.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV