Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Greindarpróf munaðarlaus í kerfinu frá 2015

Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Þegar ekki er hægt að greina börnin rétt getur það bitnað á þjónustunni sem þau fá. Þetta segir formaður Sálfræðingafélags Íslands. Próf sem íslenskir sálfræðingar nota til þess að meta greind og þroska barna eru úrelt. Frá því Námsmatsstofnun var lögð niður og Menntamálastofnun stofnuð hefur engin stofnun haft umsjón með því að þýða og staðfæra prófin. Erlent fyrirtæki sem er með einkarétt á prófunum hefur tilkynnt að ekki sé lengur heimilt að dreifa þeim.

Fimmtán ára gamalt próf

„Prófið sem við erum að nota í dag, það er annars vegar leikskólaútgáfa og hins vegar grunnskólaútgáfa af vitsmunaþroskaprófum. Leikskólaútgáfan er frá árinu 2003. Þetta er próf sem er löngu orðið úrelt og ekki forsvaranlegt fyrir sálfræðinga að nýta þetta í mati á börnum,“ segir Hrund Þrándardóttir, formaður Sálfræðingafélags Íslands. Niðurstöður prófanna geta haft áhrif á ákvarðanir um meðferð eða úrræði börnum til handa.

Segir erfitt að meta hvaða stuðning börnin þurfi

Það þarf að endurnýja prófin reglulega. Bandaríska fyrirtækið sem framleiðir prófin sem stjórnvöld hafa keypt og staðlað hefur hætt framleiðslu þeirrar útgáfu sem hefur veirð notuð hér og það er hvorki hægt að kaupa skráningarblöð né varahluti. 

„Þetta próf er grunnur þess að við getum metið ýmislegt; námsvanda, þroskahömlun, adhd og ýmsar fatlanir. Ef við erum ekki með rétta greiningu getum við ekki metið rétt eðli og umfang þess stuðnings sem hvert barn þarf. Þetta náttúrulega kemur inn í öll okkar kerfi, mennta- , félags- og heilbrigðiskerfin.“

Heilbrigðismál, ekki menntamál

Námsmatsstofnun sá áður um að þýða og staðfæra prófin en þegar Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun voru sameinaðar í nýja stofnun, Menntamálastofnun, árið 2015 urðu greindarprófin munaðarlaus í kerfinu. Arnór Guðmundsson, forstjóri stofnunarinnar, segir að ráðherra hafi ekki talið umsýslu, staðfæringu, stöðlun og þýðingu klínískra prófa falla undir starfssvið hennar, þetta sé í grunninn heilbrigðismál ekki menntamál.  

Hrund segir málið háalvarlegt. „Stofnunin leggur niður verkefni án þess að tryggja að það sé í farvegi annars staðar þannig að þetta er algerlega í lausu lofti.“

Kosti yfir hundrað milljónir

Arnór segir að prófin hafi þegar verið orðin úrelt og samningar útrunnir áður en Námsmatsstofnun var lögð niður, það hafi þurft að byrja að huga að þessum málum fyrir löngu. Hann segir að það sé mjög stórt og umfangsmikið verkefni að þýða og staðla ný próf, kosti yfir hundrað milljónir. Einhver þurfi að taka að sér að leiða verkefnið aftur og telur hann að sálfræðideildir háskólanna gætu til dæmis komið að því. Menntamálastofnun geti lagt sitt af mörkum með því að veita ráðgjöf en geti ekki leitt þessa vinnu. 

Talsmaður Sálfræðingafélagsins segir að það sé hægt að fara ódýrari leið með samstarfi við Norðurlöndin en einhver stofnun þurfi þá að hafa það hlutverk að ræða við þá sem hafa umsjón með prófunum þar.

Hafa ekki fengið fund með ráðherra

Sálfræðingafélag Íslands hefur áhyggjur af stöðunni og hefur óskað eftir fundi með menntamálaráherra en ekki fengið. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV