Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Greiðslur til þingmanna birtar á sérstökum vef

19.02.2018 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forsætisnefnd ætlar að opna sérstakan vef þar sem allar upplýsingar verða um greiðslur til þingmanna og þær verða rekjanlegar. Forseti Alþingis segir markmiðið að allt sem þessu tengist verði hafið yfir vafa og að hver sem er geti nálgast upplýsingarnar.

Forsætisnefnd Alþingis kom saman til fundar í hádeginu þar sem ræddar voru greiðslur til þingmanna, meðal annars aksturskostnaður sem mikið hefur verið í umræðunni eftir að í ljós kom að Ásmundur Friðriksson fékk 4,6 milljónir í fyrra í aksturskostnað. Forsætisráðherra hefur sagt að skýra þurfi reglurnar og veita upplýsingar um greiðslurnar. 

„Það sem varð svo undir á fundinum fyrst og fremst var það hvernig Alþingi mun standa að upplýsingagjöf um greiðslur til þingmanna og endurgreiðslur á kostnaði í framhaldinu og það var mjög góður andi í þeirri umræðu og mikil samstaða um að fara þar í verulegar breytingarog opna og opna inná þessi mál þannig að það ríki fullkomið gagnsæi um þau,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jón Þór Ólafsson er 5.varaforseti Alþingis.

Telur að lög kunni að hafa verið brotin

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata og einn af varaforsetum þingsins telur fullt tilefni til að skoða öll þessi mál vel og telur að lög hafi jafnvel verið brotin í tilviki Ásmundar Friðrikssonar en samkvæmt reglum Alþingis eiga þingmenn að nota bílaleigubíl ef þeir keyra meira en fimmtán þúsund kílómetra á ári.

„Ef þú ferð yfir þessa fimmtán þúsund kílómetra þá skal þingmaðurinn fara á bílaleigubíl og ef að hann rukkar eftir það að fá aksturspeninga þá sýnist mér það ekki vera í samræmi við lög og reglur,“ segir Jón Þór og bendir á að hver sem er geti senti forsætisnefnd erindi. 

„Við erum að starfa fyrir landsmenn og landsmenn eiga rétt á því að vita hvað það er sem þeir borga fyrir okkar störf.“

Forsætisnefnd leggur nú af stað í þessa vinnu, sem forseti Alþingis telur að geti gengið hratt fyrir sig og sérstakur vefur verður opnaður sem verður öllum aðgengilegur. „Markmiðið er auðvitað bara að þetta sé allt saman hafið yfir vafa og rekjanlegt og hægt að fletta uppá því hver þessi kostnaður er,“ segir Steingrímur. 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV