Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Greiðsluafkoma ríkisins batnar

06.09.2016 - 04:06
Mynd með færslu
Í Hafnarfirði. Mynd úr safni.  Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Handbært fé frá rekstri ríkisins hækkaði verulega í uppgjöri greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Hækkunin nemur rúmum 72 milljörðum króna. Stærsta hluti skýringanna má rekja til tekna af stöðugleikaframlögum.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
Tekjuskattar einstaklinga hækka líka talsvert, eða um 11,2 prósent umfram áætlun, vegna meiri launahækkana og fleiri vinnustundum en gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá
Tekjuskattur lögaðila var hins vegar 22 prósent undir áætlun og nam 25 milljörðum króna. Þar ber reyndar að taka tillit til þess að innheimtan er til bráðabirgða, byggð á síðustu álagningu og verður leiðrétt við álagningu lögaðila í haust.
Skattar á vöru og þjónustu hafa einnig aukist, voru á fyrstu sex mánuðum ársins 143 milljarðar sem er 7,5 prósent umfram áætlun. Þar vegur þyngst virðisaukaskattur sem hefur aukist um 15,4 prósent milli ára og nam 99 milljörðum. Þar má sjá bein áhrif af fjölgun ferðamanna en einnig aukinn kaupmátt Íslendinga.
En fleira kemur til svo sem aukinn innflutningur bíla og tryggingargjald sem var 5 prósent umfram áætlun, en á móti hefur sala tóbaks dregist saman.
Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála jukust um tíu og hálfan milljarð eða um 12,4 prósent og til menntamála hækkuðu útgjöldin um 7,4%.

 

 

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV