Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Greiddu 175 þúsund fyrir skóna

18.09.2013 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsmannafélag skipverja á vinnsluskipinu Guðmundi VE-29 greiddi 175 þúsund krónur fyrir strigaskó Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem hann klæddist á fundi með Barack Obama og forsætisráðherrum norrænna ríkja.

Starfsmannafélagið hefur reglulega tekið þátt í uppboðum og gefið til góðgerðamála. Greiðslan sem þeir inntu af hendi fyrir skó Sigmundar Davíðs rennur í söfnunina „Á allra vörum" þar sem safnað er fé fyrir geðgjörgæsludeild á Landspítala. Í fyrra keyptu þeir landsliðstreyju Gylfa Þórs Sigurðssonar knattspyrnumanns á 550 þúsund krónur á uppboði til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.

„Þetta lítur mjög vel út, nóg eftir í þessu," sagði Ágúst Þór Ágústsson skipverji á Guðmundi VE, í Virkum morgnum þegar hann tók við skónum. Hann var sendur var sem fulltrúi áhafnarinnar að sækja skóna. Ágúst Þór sagði óljóst hvað skipverjar myndu gera með skóna. „Alla vega að taka þá með í túr og sjá hvernig þeir haga sér. Svo kemur það í ljós.

Forsætisráðherra mætti í Virka morgna og gaf skóna á uppboð vegna fjársöfnunar. Reglurnar hljóðuðu upp á að skórinn sem hann klæddist á fundinum með Obama og norrænu forsætisráðherrunum væri boðinn upp og hinn fylgdi frítt með. RÚV-mynd: Þórður Helgi Þórðarson.