Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Greiddi óvart fyrir líkamsræktarkort í mörg ár

08.01.2018 - 22:31
Mynd: RÚV / RÚV
Neytendur verða að kynna sér skilmála þegar keypt eru kort í líkamsræktarstöðvar og passa upp á að segja áskrift upp skriflega. Eftir að reikningar almennt urðu rafrænir fylgist fólk síður með því hvað það er að greiða fyrir. Dæmi eru um að viðskiptavinur hafi greitt fyrir líkamsræktarkort í mörg ár án þess að vita af því.

Margir strengja þess heit um áramótin að taka upp heilbrigðari lífsstíl. Kastljós kannaði hvað neytendur þurfa að varast þegar þeir kaupa kort í ræktina með binditíma sem segja þarf upp með ákveðnum fyrirvara. „Ef fólk vill hætta að nýta kortin þá þarf það að muna að segja áskriftinni upp skriflega. Það er alltaf einhver binding á þessum kortum,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, í viðtali í Kastljósi í kvöld. 

Hún bendir á að fólk láti setja greiðslur vegna áskriftar á ýmsu á kreditkort og skoði ekki yfirlit í netbanka. „Svo vaknar fólk upp við vondan draum og hefur greitt í marga mánuði af þjónustu sem það hélt að það væri búið að segja upp. Við höfum dæmi um að fólk hafi greitt fyrir þjónustu í mörg ár.“ Brynhildur nefnir sem dæmi að viðskiptavinur hafi sagt upp áskrift að líkamsrækt með því að tala við starfsmann í móttökunni. Það fórst fyrir að skrá uppsögnina og viðskiptavinurinn greiddi áskrift í mörg ár án þess að vita af því.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það er á ábyrgð neytenda að skoða hvað þeir eru að greiða fyrir, að sögn Brynhildar. Þegar reikningar komi ekki heim í umslagi, heldur rafrænir, þá geti gleymst að skoða þá. „Fólk verður bara að setjast niður með tebollann eða kaffibollann og súkkulaði af og til og fara yfir þessa rafrænu reikninga í heimabankanum. Það leynist ýmislegt þar. Ég er viss um að það eru mörg fyrirtæki sem græða á því hvað við erum stundum sofandi.“

Neytendur geta leitað til Neytendasamtakanna ef þeir telja á sér brotið. Brynhildur segir oft hægt að leysa slík mál. Stundum eigi neytandinn þó engan rétt og sitji þá í súpunni. Ef seljandinn telji að hann hafi ekki gert neitt rangt en Neytendasamtökin telja að neytandinn hafi málstað að verja er hægt að fara með mál fyrir úrskurðar- og kærunefndir.