Grafið eftir hljóðum í gegnum ísinn

Mynd: RÚV / RÚV

Grafið eftir hljóðum í gegnum ísinn

15.04.2018 - 15:23

Höfundar

Plötusnúðurinn Illugi Magnússon, sem býr í Oakland í Bandaríkjunum, blandar saman vel völdum íslenskum dægurlögum frá sjöunda, áttunda og níunda áratugnum á blandspólunni Breaking The Ice. Þórður Ingi Jónsson ræddi við Illuga um einstakan hljóm tónlistarinnar og hvernig hún býr yfir fönk- og hipphoppþáttum.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Leitin að áhugaverðri tónlist úr fortíðinni heillar plötusnúða og taktsmiði í leit að hráefni. „Crate-diggers“ eru þau kölluð sem grafa eftir vínylplötum í gömlum mjólkurkössum og á háaloftum þessa heims. Þessi tónlistarlega endurvinnsla er til dæmis grunnurinn að töktunum í hip-hop tónlist, þar sem menn fundu trommutakta eða svokölluð „breaks“ úr gömlum plötum til að byggja upp ný lög.

Illugi Magnússon, einnig þekktur sem DJ Platurn, er plötusnúður og skífuskenkjari sem býr í Oakland í Bandaríkjunum. Hann lifir og hrærist í þessum heimi rykfallinna takta og skemmdra vínyl-nála og hefur gert það síðastliðin 25 ár. Illugi stofnaði The Oakland Faders í kringum árið 2000 en það er hópur plötusnúða og taktsmiða á Bay Area svæðinu í Kaliforníu.

Tónlistin sem hann ólst upp með

Illugi hefur nú gefið út ástríðuverkefnið Breaking the Ice en það er mix í tveimur pörtum þar sem hann blandar saman vel völdum íslenskum dægurlögum frá sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Þetta er tónlist sem ber með sér einkenni fönk- og sálartónlistar, tónlistarstefnur sem voru erfðavísarnir að hipphoppi á sínum tíma, tónlist sem Illugi ólst upp við.

„Slatti af þessum plötum, sem ég hef átt síðan ég var krakki, voru líka í safninu hans pabba míns,“ segir Illugi en faðir hans hét Magnús Þrándur Þórðarson og var þekktur plötusnúður og útvarpsmaður á sínum tíma. „Hann spilaði í Tónabæ og var með alls konar í gangi. Hann var að setja saman tónleika með hljómsveitum í bænum eins og Rooftops, Pelican, Trúbrot og Hljómum. Þeir þekktu allir hver annan,“ segir Illugi. Sumar af plötunum sem komust í mixið voru úr safni föður Illuga. „Það er slatti af þessu sem er búið að vera í lífinu mínu alveg síðan ég var barn eða síðan ég var nógu gamall til að dansa við músík sem hann var að spila,“ segir Illugi og hlær við.

Illugi segist hafa byrjað að huga að verkefninu þegar hann ásamt frænda sínum hóf djúpköfun ofan í þennan hluta íslenskrar dægurtónlistar. „Við erum að tala um meira svona „groovy“ hlið af íslenskri tónlist. Flestir þekkja Björk og Sigur Rós og allt þetta en vita ekkert endilega að fönkið var partur af músíkinni á Íslandi í gamla daga,“ segir Illugi. Hann segir þessa músík dansvæna og undir áhrifum frá listamönnum sálartónlistar, eins og Arethu Franklin. „Þetta er allavega ekki tónlist sem hefur verið talað mikið um í kringum svona plötusnúða- eða rappkúltúr.“ Hann veitti því  strax athygli hvað öll spilamennska í þessum lögum hefði verið fyrsta flokks, ekki síst bassa- og trommuleikur. „Hljómurinn var svo kúl og frumlegur, meira að segja hvernig þeir gerðu sínar eigin ábreiður af öðrum lögum. Þetta var mjög sérstakt sánd sem var að koma þarna út úr þessum senum.“

Eftir tólf ár af plötugreftri hefur Illugi blandað saman um það bil 70 íslenskum lögum í 87 mínútna DJ-blöndu með plötuklóri og öllu tilheyrandi. Illugi segir íslensku tónlistarsenuna á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum hafa verið óvanalega fjölbreytta og áhrifin komið úr mörgum mismunandi áttum. Vegna þess að hann hefur verið búsettur í Bandaríkjunum síðan 1983 og lengið verið viðloðandi hipphopp segir hann íslenska tónlist með hipphopp-tengingu hafa sérstaklega mikið gildi fyrir sig og fjölskylduna. „Þetta yljar manni mjög um hjartarætur og fyrir okkur sem fjölskyldu. Við erum ennþá mjög tengd landinu þótt við höfum verið í burtu svona lengi. Við komum auðvitað oft heim og tölum tungumálið en þetta er mjög spes og persónulegt fyrir okkur.“

Hægt er að hlusta á Breaking the Ice á Soundcloud eða kaupa á kassettu eða geisladisk þar sem má finna nostalgískar fjölskyldumyndir frá Illuga og ítarlegan texta um hinn gamla skóla íslenskar tónlistar eftir blaðamanninn David Ma.

Tengdar fréttir

Tónlist

Scott Walker okkar kynslóðar

Pistlar

Í sínum eigin heimi

Tónlist

Rappað í djammhöfuðborg heimsins

Tónlist

Gullaldartregi eða brummandi bassi?