Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Grafa göng úr Fógetahúsinu í Landnámssýninguna

05.05.2018 - 19:41
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Eitt elsta og merkasta hús Reykjavíkurborgar, fógetahúsið við Aðalstræti 10, var vígt sem safn í dag. Til stendur að grafa þaðan göng yfir í Landnámssýninguna tveimur húsum frá. Fógetahúsið við Aðalstræti 10 er elsta hús Reykjavíkurborgar sem stendur uppi á landi – einungis Viðeyjarstofa er eldri. Fógetahúsið var reist 1762 undir verksmiðjur Innréttinganna, félags Skúla fógeta Magnússonar.

„Hér bjuggu líka ýmsir, landlæknir og biskup og kaupmenn. Svo voru Silli og Valdi hérna með verslun, sem er mjög áhugavert. Margir muna kannski eftir því. Svo hafa verið hérna öldurhús en nú er þetta sem sagt orðið safna- og sýningarhús og það er bara vel við hæfi,“ segir Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Frá og með deginum í dag eru þrjár sýningar í húsinu. Ein er um sögu hússins sjálfs og í bakhúsinu eru tvær enn – önnur um torfhús í Reykjavík, sem byggir á rannsóknum Hjörleifs Stefánssonar, hin er ljósmyndasýningin Reykjavík 1918, samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins og Borgarsögusafnsins í tilefni aldarafmælis fullveldisins.

Þegar er farið að leggja drög að næstu sýningum. Fyrirhugað er að gera sögu Kvosarinnar og nýuppgötvuðum fornminjum þar góð skil. Og þá er ótalin ráðgerð sýning sem tengist Landnámssýningunni tveimur húsum sunnar í Aðalstrætinu.

„Við munum opna hérna undirgöng á milli þessara tveggja rýma og þá munum við fá tækifæri til að fjalla um sögu Reykjavíkur, alveg frá landnámi til samtímans í þessum tveimur rýmum,“ segir Guðbrandur.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV