Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grænlenska stjórnin fallin

09.09.2018 - 22:16
Godthåbhallen í Nuuk að utan, kjörstaður í landsþingskosningum, grænlenski fáninn
Kjörstaður í Nuuk í landsþingskosningunum 2018 Mynd: Danmarks Radio - DR
Grænlenska stjórnin féll í dag er Partii Naleraq hætti þátttöku í stjórnarsamstarfinu. Hans Enoksen, formaður flokksins, sagði á fundi með fréttamönnum í kvöld að flokkurinn hefði ekki geta sætt sig við að danska ríkið tæki þátt í að fjármagna uppbyggingu flugvalla í landinu. Stjórnin var mynduð í maí-byrjun eftir kosningar.

Stjórnin hafði aðeins eins þingsætis meirihluta á Inatsisartut, grænlenska þinginu, 16 þingmenn á móti 15 í stjórnarandstöðu. Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar, sagði í viðtali við dagblaðið Sermitsiaq að ekki yrði efnt til nýrra kosninga þó að Partii Naleraq hefði hætt stjórnarþátttöku. Sermitsiaq segir að Kielsen geti reynt að mynda nýja stjórn eða sitja áfram sem leiðtogi minnihlutastjórnar og leita stuðnings stjórnarandstöðuflokka í einstökum málum.

Kielsen, sem er leiðtogi jafnaðarmannaflokksins Siumut, valdi eftir kosningarnar í vor að stjórna með mið- og hægriflokkunum Partii Naleraq, Atassut og Nunatta Qitornai. Partii Naleraq var í gömlu stjórninni, en sósíalistaflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) hvarf úr stjórninni. 

Siumut og IA eru stærstu flokkarnir á þinginu í Nuuk með átta þingmenn. Þeir töpuðu þó báðir fylgi og þingsætum í þingkosningunum. Demókratar juku fylgi sitt mest allra flokka á milli kosninga. Þeir fengu um 20 prósent og sex þingsæti.