Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Grænkeramatur - Uppskriftir úr fyrsta þætti

07.07.2016 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Í nýjum grænmetismatreiðsluþáttum frá sænska sjónvarpinu elda vinkonurnar Karoline og Elenore spennandi og gómsæta rétti úr náttúrulegu hráefni úti í guðsgrænni náttúrunni. Hér eru uppskriftirnar úr fyrsta þættinum:

 

Þeytingur með berjum

Tími: 10 mínútur
Fyrir tvo

Grunnuppskrift að ljúffengum norrænum berjaþeytingi. Tilvalið er að nota  árstíðabundin ber og grænmeti, eða það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Gleymið ekki að skreyta með einhverju bragðgóðu og fallegu!

Hráefni:    

 • 4 dl af blönduðum frosnum berjum (t.d.bláberjum, goji-berjum, vínberjum, brómberjum, hindberjum, týtuberjum o.s.frv.)
 • 2 dl vatn
 • 1 lófafylli af grænkáli eða spínati
 • 1 lárpera (avókadó)
 • safi úr einni sítrónu
 • 2 litlir bananar
 • 2 msk acai-duft (má sleppa)

Aðferð:
1. Setjið allt saman í blandara og blandið uns þeytingurinn er orðinn mjúkur og kekkjalaus.
2.    Hellið í fallegar skálar og skreytið eftir smekk, t.d. með niðurskornum jarðarberjum, kókosflögum, möndlum, fræjum eða ristuðu kínóa!

 

Hrökkbrauð með fræjum

Tími: 50 mínútur
Fyrir tvo

Tilvalin uppskrift fyrir þau sem kunna að meta heimabakstur en vilja sleppa við klístraðar hendur, mikið hnoð og biðina eftir því að deigið hefist. Þessu deigi þarf bara að breiða úr á plötu með bökunarpappír og stinga inn í ofn. Óhnoðað og gott!

Hráefni:

 • 2 dl spelthveiti eða 3 dl haframjöl
 • 1 dl sesamfræ, með hýðinu
 • 1 dl sólblómafræ eða graskersfræ
 • 1 dl hörfræ
 • 2 msk chia-fræ
 •  ½ tsk salt
 • 1 msk ólífuolía
 • 2 dl vatn
 • Þurrkað rósmarín, kúmenfræ og fenníkufræ til að strá yfir

Aðferð:
1. Blandið þurrefnunum saman, bætið olíu og vatni í og hrærið vel saman.
2. Breiðið úr deiginu á plötu með bökunarpappír og stráið kryddi og fræjum að eigin vali yfir.
3. Bakið við 150 gráður í um 45 mínútur.

Ábending: Ef þið viljið hafa hrökkbrauðið í jöfnum bitum getið þið tekið plötuna út eftir 20 mínútur, skorið í bita og bakað svo í 25 mínútur í viðbót.
Ábending:Tilvalið er að bera hrökkbrauðið fram með krydduðu tómatmauki.

Kryddað tómatmauk

Tími: 15 mínútur

Þetta mauk er ekki bara bragðmikið og ljúffengt, það getur hreinlega bjargað málunum á ögurstundu! Smyrjið því á hrökkbrauð, brauð, niðurskorið grænmeti og vefjur og verðið södd fyrr en varir.

Hráefni:

 • 3 dl hvítar baunir (smjörbaunir), soðnar, eða einn pakki/dós af forsoðnum baunum sem búið er að hella vatninu af
 • 10–15 sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu)
 • 1 dl tahini (sesamsmjör)
 • ½ dl ólífuolía
 • 1 lófafylli af ferskri basilíku
 • 2 klípur af hvítum pipar

Aðferð:
1. Leggið sólþurrkuðu tómatana í bleyti í að minnsta kosti 20 mínútur. Hellið vatninu af (tilvalið er að geyma það og nota í súpur, pottrétti o.fl.)
2. Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og maukið. Geymist í þéttlokuðu íláti í kæli í allt að viku.

Ábending: Smyrjið á kex, brauð, salatblað, niðurskorið grænmeti eða notið sem salatdressingu. Möguleikarnir eru óendanlegir. Tilvalið er að smyrja maukinu á heimabakað hrökkbrauð!

Grænmetisborgarar úr sveitinni

Tími: 30 mínútur
Fyrir átta til tólf

Þessir borgarar henta bæði grænmetisætum og þeim sem eru vegan. Þeir eru afar safaríkir og gott að bera þá fram í hamborgarabrauði eða sem grænmetisbuff með meðlæti. Þeir eru saltaðir með tamarísósu, sem er japönsk sojasósa.

Hráefni:

 • 250 g skógarsveppir
 • 1 1/4 dl svartar eða grænar linsubaunir
 • 1 1/4 dl hirsi
 • 5 dl vatn
 • 5 litlir laukar
 • 3 hvítlauksrif
 • 3/4 dl sólblómafræ
 • 3 msk tamarí (japönsk sojasósa)
 • 2 klípur af svörtum pipar
 • 3 msk kaldpressuð repjuolía til steikingar

Aðferð:
1. Hitið 5 dl af vatni að suðu og bætið linsubaunum og hirsi út í. Sjóðið við miðlungs háan hita í 11–15 mínútur eða þangað til linsur og hirsi er fulleldað og vatnið gufað upp.
2. Sneiðið laukinn meðan linsur og hirsi sjóða. Setjið pönnu yfir miðlungs háan hita og hellið á hana 2 msk af repjuolíu. Steikið laukinn við meðalháan hita í um 15 mínútur eða þangað til hann er orðinn brúnaður.
3. Sneiðið sveppina. Setjið pönnu yfir meðalháan hita og hellið á hana matskeiðinni af olíu sem eftir er. Steikið sveppina þangað til mestur vökvinn er farinn úr þeim og þeir eru orðnir fallega brúnir á lit.
4. Setjið sólblómafræin í matvinnsluvél og blandið þangað til þau verða að mjöli. Bætið brúnuðum lauk, soðnu hirsi, linsubaunum og steiktum sveppum í matvinnsluvélina, einnig tamarísósu, svörtum pipar, hvítlauk og salti. Hakkið öll hráefnin saman. Áferðin á blöndunni á ekki að  vera alveg kekkjalaus, en þó nógu jöfn í sér til að hægt sé að móta borgara úr henni.
5. Mótið borgarana með hreinum höndum. Hafið skál með köldu vatni til taks og dýfið höndunum í hana inni á milli, til að varna því að maturinn loði við húðina. Gott er að láta borgarana þorna (og jafnvel snúa þeim einu sinni við) áður en þeir eru eldaðir. Því er tilvalið að útbúa þá daginn áður og geyma í kæli yfir nótt.
6.    Grillið eða steikið borgarana í nokkrar mínútur, uns þeir eru heitir í gegn og hafa tekið dálítinn lit á báðum hliðum. Berið fram með hrárri tómatsósu, hráu majónesi, gulrófu- og sætkartöflufrönskum, súrdeigsbrauði og salati.

Hrá tómatsósa

Tími: 20 mínútur

Bragðmikil tómatsósa sem tekur enga stund að útbúa. Engin óþarfa innihaldsefni eða aukefni – aðeins hreint bragð af hreinu hráefni.

Hráefni:

 • 100 g sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu)
 • 2½ dl heitt vatn til að leggja í bleyti
 • 1 daðla (til dæmis medjool-daðla), stór og steinlaus
 • 2 klípur af svörtum pipar
 • 2 msk kaldpressuð ólífuolía
 • 1 stór ferskur tómatur eða 4–5 kokteiltómatar

Aðferð:
1. Leggið sólþurrkuðu tómatana í heitt vatn í að minnsta kosti 20 mínútur. Hellið vatninu af og geymið það.
2. Setjið allt hráefnið, auk tveggja desilítra af vatninu af sólþurrkuðu tómötunum, í blandara og blandið uns sósan verður kekkjalaus. Geymist í þéttlokuðu íláti í kæli í allt að viku.

Tilvalið er að bera sósuna fram með grænmetisborgurum.

Hrátt majónes

Tími: 5 mínútur

Það er hægt að búa til mjög gott majónes án þess að nota hin hefðbundnu innihaldsefni úr dýraríkinu. Þetta majónes er gott sem ídýfa og meðlæti með ýmsum mat.

Hráefni:

 • 1,2 dl kasjúhnetur, óristaðar og ósaltaðar
 • 2 msk ferskur sítrónusafi
 • 3 msk ljóst miso-mauk
 • 2 msk eplaedik
 • 1 tsk tamarí (japönsk sojasósa)
 • 3 msk kaldpressuð ólífuolía
 • 2 msk vatn
 • 1½ tsk næringarger (má sleppa)

Aðferð:
1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í 4 dl af vatni yfir nótt eða að minnsta kosti í 4 klukkustundir. Hellið vatninu af og skolið hneturnar undir rennandi vatni.
2. Setjið allt hráefnið í blandara og blandið uns majónesið verður kekkjalaust. Það getur tekið fáeinar mínútur.

Tilvalið er að bera majónesið fram með grænmetisborgurum.

 

Grillað eða ofnbakað rótargrænmeti

Tími: 30 mínútur
Fyrir fjóra

Þessir rótargrænmetisbögglar eru frábært meðlæti með grillmat, svo sem grænmetisborgurum, og minna allt í senn á bakaðar kartöflur, franskar og kartöflubáta.

Hráefni:

 • 500 g sætar kartöflur
 •  ½-1 gulrófa
 • 1 búnt af salvíu
 • 1 búnt af timjani
 • repjuolía
 • salt og pipar

Aðferð:
1. Flysjið gulrófuna og hreinsið sætu kartöfluna. 
2. Skerið í báta eða lengjur, skiptið í tvo hluta og pakkið báðum skömmtunum inn í álpappír. Saltið, piprið, kryddið og dreypið olíu yfir. Lokið bögglunum og setjið á grillið í um 15–20 mínútur, snúið við eftir 8–10 mínútur. Einnig er gott að baka bögglana í ofni.
 

Tilvalið meðlæti með grænmetisborgurum.