Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Grænkeramatur - uppskriftir úr fimmta þætti

28.08.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Í nýjum grænmetismatreiðsluþáttum frá sænska sjónvarpinu elda vinkonurnar Karoline og Elenore spennandi og gómsæta rétti úr náttúrulegu hráefni úti í guðsgrænni náttúrunni. Hér eru uppskriftirnar úr fimmta þætti:

 

Pottréttur með chili
TÍMI: 30 MÍNÚTUR

Góður og safaríkur pottréttur sem má ýmist elda í snatri eða láta standa og malla – allt eftir því hvað þú hefur mikinn tíma. Berið fram með góðu sveitabrauði.

Hráefni fyrir 4

2 gulir laukar
2 rauðar paprikur
1 msk paprikuduft
1 ½ tsk broddkúmen
3 lárviðarlauf
3 chili-ávextir
3 hvítlauksgeirar
500 g tómatmauk
6 dl vatn
2 dl rauðar linsur
3 msk tamarí eða japönsk sojasósa
7 dl soðnar baunir (smjörbaunir og nýrnabaunir)
2 dl frosinn maís
salt & pipar

AÐFERÐ

1. Flysjið lauk og skerið í strimla, skerið paprikuna í grófa bita og saxið chili-ið smátt Steikið í olíu uns laukurinn er orðinn mjúkur og farinn að taka lit.
2. Bætið kryddi, lárviðarlaufum og pressuðum hvítlauk við og steikið í mínútu í viðbót.
3. Bætið við tómatmauki, vatni, linsum og tamarí og látið sjóða í minnst 15 mínútur, bætið svo maísnum og baununum í og sjóðið í 2–3 mínútur enn.

Sterk sætkartöflusúpa
TÍMI: 20 MÍNÚTUR

Þegar ég hef engan tíma til að elda kvöldmat – þá hef ég súpu. Þessi bragðmikla og heilnæma súpa er í uppáhaldi á heimilinu.

Hráefni fyrir 4

1 ½ msk kaldpressuð repjuolía
3 gulir laukar
2 hvítlauksgeirar
2 litlar kanelstangir
900 g sæt kartafla
½ ferskur chili
½ stilkur sítrónugras
1 biti ferskt engifer (flysjað og svipað og þumall að lengd)
½ sítróna
1 lítri af vatni

AÐFERÐ

Takið eftir því að aðferðin sem hér er lýst er ekki alveg eins og í þættinum, en þessi er skilvirkari.

1. Ef sætu kartöflurnar eru lífrænar þarf ekki að skræla þær, heldur dugir að skrúbba þær vel. Skerið þær í fernt á lengdina og svo í grófa teninga. Leggið til hliðar.
2. Flysjið laukinn og skerið í þunnar sneiðar – þær mega alveg vera ójafnar, því svo verður allt maukað saman. Hitið olíuna í stórum potti og steikið laukinn og kanelstangirnar uns laukurinn er mjúkur og kanellinn farinn að ilma, eða í um 4 mínútur.
3. Leggið sítrónugrasið á skurðarbretti og bankið í það með bakkanum á hníf, mortélsstaut eða öðru þungu. Þetta verður til þess að bragðið kemur betur fram en ella. Saxið sítrónugrasið síðan gróft.
4. Bætið sítrónugrasi og öllu hráefninu sem eftir er í pottinn. Sjóðið uns sæta kartaflan er mjúk í gegn, í um 7–10 mín. Blandið súpunaa í háum blandara eða með töfrasprota uns hún er kekkjalaus. Berið fram með nýrifnum kanel og jafnvel einnig fáeinum teskeiðum af hafrarjóma.

Núðlu-wok með hnetusósu

TÍMI: 30 MÍNÚTUR
Þessi bragðmikli wokréttur er ekta skyndimatur, fullur af góðu grænmeti og með kryddaðri hnetusósu sem gerir gæfumuninn.

Hráefni fyrir fjóra

Wok
1/3 rauðkálshöfuð
2 paprikur
2 gulrætur
15 sykurertur
½ púrrulaukur
1 msk rifið engifer
2 hvítlauksgeirar
1 msk kínversk sojasósa
2 msk sesamfræ
100 g glærar núðlur (eða þaranúðlur eða hrísgrjónanúðlur)

Hnetusósa
1 lítill gulur laukur
4 dl saltaðar jarðhnetur
1 dós kókosmjólk
2 tsk rautt karrímauk
2 st hvítlauksgeirar
1 msk rifið engifer
1–2 msk tamari

AÐFERÐ

Wok
1. Rífið rauðkálið með mandólíni, eða skerið það eins þunnt og þið getið með hníf. Skerið papriku í strimla. Skerið gulrætur og púrrulauk á lengdina, í um 10 cm langa strimla.
2. Steikið í wok-pönnu á háum hita með dálítilli repjuolíu þangað til kálið er farið að mýkjast, en er þó ekki alveg mjúkt. Á meðan skuluð þið sjóða núðlurnar eins og stendur á umbúðunum (þaranúðlur þarf ekki að sjóða).
3. Bætið rifnu engiferi og hvítlauk, sojasósu og sesamfræjum út í. Blandið vel saman. Að lokum skuluð þið bæta núðlunum og sykurertunum við.

Sósa
1. Skerið laukinn smátt og steikið með dálítilli olíu, uns hann er farinn að mýkjast og taka á sig lit. Bætið karrímauki, hvítlauk og engiferi út í og steikið í fáeinar mínútur enn.
2. Blandið hnetum og kókosmjólk saman í blandara, hellið á pönnuna ásamt tamarísósunni og látið allt malla samaan í nokkrar mínútur.

Graskers-laya

TÍMI: 75 MÍNÚTUR
Graskers-laya er okkar grænkeraútfærsla á hrísgrjónaréttinum jambalaya, sem er upprunninn í cajun-matargerð og á fenjasvæðunum í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Hráefni fyrir 4-5

2 gulir laukar
2 grænar paprikur
3 stilkar sellerí
1 butternut-grasker
½ gulrófa
1 pakki saffran
2 tsk chili-duft
2 tsk ferskt timjan
1 tsk þurrkað rósmarín
2 tsk þurrkað oregano
4 lárviðarlauf
500 g tómatmauk
3 dl svört hrísgrjón
1 lítri vatn eða grænmetiskraftur
1 búnt af blönduðum salatblöðum
olía til steikingar
salt og pipar

AÐFERÐ
1. Flysjið laukinn og saxið smátt, saxið einnig papriku og sellerí. Steikið þetta í rúmgóðum potti uns það er farið að mýkjast og laukurinn farinn að taka lit. Bætið kryddinu við og steikið í fáeinar mínútur enn.
2. Flysjið gulrófuna, flysjið og kjarnhreinsið graskerið og skerið hvort tveggja í bita. Bætið í pottinn ásamt maukuðum tómötum, hrísgrjónum og vatni.
3. Látið sjóða í um 50 mínútur eða þangað til hrísgrjónin eru fullelduð. Hrærið salatblöðunum saman við áður en rétturinn er borinn fram.

Nípukaka með kremi

TÍMI: 30 MÍNÚTUR
Við erum svo hrifnar af gulrótarköku að við höfum næstum (en bara næstum) borðað yfir okkur af henni. Þá datt okkur í hug að baka köku úr frænku gulrótarinnar, nípunni! Útkoman er einstaklega mjúk, safarík og ljúffeng kaka sem við berum fram með stolti á uppskeruhátíðinni okkar.

Hráefni fyrir 12-15

3 nípur
5 dl spelthveiti
2½ dl kókossykur (eða venjulegur strásykur)
½ dl psyllium-fræskurn
4 tsk lyftiduft
2 st kardemommufræ
1 tsk salt
3 dl haframjólk
2 dl repjuolía

Krem
3 dl kasjúhnetur
5 döðlur
1 dl vatn, eða jafn mikið og þarf til að áferðin verði rétt
½ tsk vanilluduft
ysta lagið af berkinum á einni sítrónu og safi úr hálfri sítrónu

AÐFERÐ

1. Rífið næpurnar með fínasta hlutanum á rifjárninu (með hýðinu á).
2. Blandið öllu hráefninu í kökuna saman.
3. Hellið deiginu í form með bökunarpappír (um 20x35 cm) og bakið við 175 gráður í um 40 mínútur, eða þangað til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp úr.

Krem:
1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í minnst 5 klukkustundir og hellið svo vatninu af.
2. Blandið öllu hráefninu saman og smyrjið því á kökuna þegar hún hefur náð að kólna alveg.
3. Geymið í kæli í minnst 2 klukkustundir og skerið svo í bita.

Haustsalat

TÍMI: 30 MÍNÚTUR
Þetta matarmikla salat er tilvalið að bera fram sem aðalrétt. Dijon-dressingin setur punktinn yfir i-ið.

Hráefni fyrir 4-6

Dressing

3 msk dijon-sinnep
4 msk ólífuolía
1 klípa salt
½ sítróna
4 litlir skalottlaukar (eða 2 stórir)

Salat

2,5 dl puy-linsubaunir
4,5 dl vatn
2 búnt steinselja, söxuð gróft (með stilkunum)
1 búnt mynta, söxuð gróft (bara blöð, ekki stilkar)
4 epli
2 nípur
ósaltaðar pistasíur / möndlur / brasilíuhnetur (grófhakkaðar og nóg af þeim)

AÐFERÐ
1. Stillið ofninn á 170 gráður
2. Setjið vatn og linsur í pott. Látið suðuna koma upp undir loki og lækkið svo hitann í meðalhita. Látið malla undir loki í um 15 mínútur.
3. Á meðan linsurnar sjóða skuluð þið kjarnhreinsa eplin og skera í báta. Leggið á bökunarplötu og bakið í ofninum í 25–30 mínútur. Þau eiga að vera alveg mjúk í gegn, svo að bökunartíminn veltur á stærð bátanna.
4. Byrjið nú á dressingunni. Setjið allt hráefnið í litla skál og hrærið vel saman. Hellið 2/3 af dressingunni í pottinn, yfir heitar, fullsoðnar linsubaunirnar. Setjið lokið aftur á og látið malla uns allt hráefnið í salatið er tilbúið.
5. Hellið linsunum með dressingunni, eplabátunum, söxuðu kryddjurtunum, hnetunum og afgangnum af dressingunni í salatskál. Hrærið vel saman og berið fram!

 

 

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir