Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Græn jógúrt úr avókadó

26.11.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Græn jógúrt er ennþá borðuð heima hjá mér, þó engin smábörn séu á heimilinu lengur. Þetta er fljótlegur og einfaldur morgunmatur, sem fer sérlega vel í maga og er kærkomin tilbreyting frá morgunmat sem inniheldur korn.

Græn jógúrt úr avókadó – fyrir börn undir eins árs

1 þroskuð lárpera/avókadó
1 epli eða þroskuð pera
Ögn af vatni (til að þetta maukist í jógúrt – byrjið með mjög lítið og þið þurfið varla nokkuð vatn ef þið eruð að nota þroskaða peru)
1 tsk. kaldpressuð kókosolía (má sleppa)

Skolið lárperuna og eplið. Skerið lárperuna í tvennt og kreistið út stóra steininn. Aldinkjötið á að vera grænt og fallegt. Skafið kjötið út með skeið og setjið í t.d. ½ L Pyrex mælikönnu. Skerið eplið í bita og hendið kjarnanum. Bætið eplinu í könnuna sem og um ½ dl af vatni (bætið við seinna ef þarf) og 1 tsk. af kókosolíu. Maukið saman, tilbúið!

*Ef ég nota peru, þá afhýði ég hana. Einnig ef eplið er ekki lífrænt.

 Græn morgunjógúrt fyrir þá sem eru eldri en eins árs!

1 þroskuð lárpera
1 epli eða þroskuð pera
1 tsk. limesafi
Ögn af vatni (til að þetta maukist í jógúrt – þarf bara ef þið notið epli)
5 dropar kókos- eða vanillustevía (má sleppa og þarf ekki ef þið eruð með þroskaða peru)

*Má setja kornfleks (lífrænt), kínóapops eða múslí út í, að eigin vali.

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir