Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Græða upp í stað lands sem fór undir lónið

20.08.2014 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Stór landsvæði hafa verið grædd upp til að bæta fyrir gróður sem fór undir Hálslón Kárahnjúkavirkjunar. Áburður hefur verið borinn á um 56 ferkílómetra og sumstaðar tekist að breyta örfoka melum í gróið beitarland.

Landbótasjóður Norður-Héraðs fór nýverið í ferð til að að líta á árangur 11 ára uppgræðslustarfs. Árið 2002 lagði Landsvirkjun 140 milljónir í sjóðinn auk árlegs framlags í ákveðinn tíma. Tilgangurinn er að bæta fyrir gróður sem fór undir Hálslón en lónið er 57 ferkílómetrar og þarf af voru 32 grónir. Einnig til að binda jarðveg við Jökulsá á dal en lækkað hefur í ánni og fok úr eyrum aukist. Þar hefur uppgræðslan gengið misvel vegna yfirfallsvatns og flóða. „Sem hafa spillt mjög þessari nýgræslu og hún hreinlega skafist af sumum eyrum en það hefur verið reynt að nudda á því sem hefur varið sig og reynt að halda því við eftir getu,“ segir Baldur Grétarsson, sem á sæti í ráðgjafarnefnd Landbótasjóðs Norður-Héraðs sem nú er hluti af Fljótsdalshéraði.

Svæðin sem grædd eru upp eru mörg og dreifð en saman eru þau orðin á stærð við Hálslón. Enn er mikið verk óunnið en uppgræðsluféð á ganga til þurrðar á næstu 30 árum. Á Jökuldalsheiði sést greinileg breyting á ábornu landi en svæðið er í mikilli hæð. „Hér er það kannski helst árferði og vatnsbúskapur sem hefur áhrif á það hvort það gengur hægt eða hratt í þessu en árangur er víða mjög góður,“ segir Baldur.

„Þetta voru bara leirflög hérna upp á slóðanum og frá víðieyjunni hérna. Það má segja að þetta sé orðið heilgróið svæði í dag,“ segir Arnór Benediktsson, bóndi á Hvanná á Jökuldal.

Í hruninu varð að daga mjög úr áburðarkaupum og en Alcoa hljóp undir bagga og veitti styrk upp á 75 þúsund dollara eða tæpar 9 milljónir. Mikilvægt er að halda dampi svo árangurinn tapist ekki. Græðslan. „Þetta lokar landinu aftur sem hefur opnast vegna eldfjallagjósku og ýmissa áhrifaþátta og lagar ásýnd landsins á allan hátt,“ segir Baldur Grétarsson.